Laxeldi í Noregi: gríðarleg áform um fjárfestingu á þessi ári

Fimm af stóru laxeldisfyrirtækjunum í Noregi gera ráð fyrir að fjárfesta samtals á þessu ári fyrir um 86 milljarða íslenskra króna. Kemur það í kjölfar um 90 milljarða króna fjárfestingu á síðasta ári.

Það er fréttarvefurinn Undercurrent news sem skýrir frá þessu í gær. Segir vefurinn að þessar gríðarlegu fjárfestingar séu til marks um mikla bjartsýni um framtíðarhorfur í greininni.

Þetta eru fyrirtækin  Mowi (áður Marine Harvest), SalMar, Leroy Seafood Group, Grieg Seafood og Norway Royal Salmon.

Þessi fimm sjókvíaeldisfyrirtæki framleiddu samtals 824 þúsund tonn af laxi á síðasta ári og áforma að framleiða á þessu ári 910 þúsund tonn. Það er aukning um nærri 100 þúsund tonn. Framleiðslan á Íslandi var um 10 þúsund tonn á síðasta ári.

Inn í þessar tölur vantar upplýsingar um fjárfestingar- og framleiðsluáform fjórða stærsta laxeldisfyrirtækisins í Noregi, Cermaq Group sem eru í eigu Mitsubishi.

Neysla  á laxi á heimsvísu jókst um 5% á síðasta ári og búist er við vaxandi eftirspurn og hækkandi verði á þessu ári.

 

DEILA