Er búhnykkur að flytja?

Finnbogi Hermannsson, rithöfundur.

Maður heyrir oft að þeir sem flytja suður geri það margir gott fyrir sunnan. Vestfirðingar eru nefnilega aldir upp við dálítið harðræði, þola vel vond veður og ekki síst að þeir kunna að keyra í snjó. Maður sér oft að þeir fyrir sunnan kunna bara ekkert að keyra í snjó og eru alltaf kolfastir.

Jafnvel lítið menntaðir Vestfirðingar hafa komist til metorða fyrir sunnan. Þeir hafa til dæmis sett upp bílasölur og bílaleigur og orðið nokkuð stórir í bílaleigunni. Aðrir hafa keypt iðnaðarhúsnæði og alls kyns kofaskrifli og leigt þetta út fyrir stórfé. Ekki síst eftir að útlendingar tóku að flæða yfir og alltaf vantar húsnæði. Nú er löngu búið að rífa alla bragganna í Reykjavík svo ekki verður leitað á náðir þeirra með húsnæði. Sömuleiðis Blesugrófina og Smálöndin, allt fyrir bí.

Því er það guðsþakkarvert að einhverjir menn með drift, hvort sem þeir eru að vestan eða ekki, skuli hlaupa undir bagga með atvinnulífinu. Maður hefur líka heyrt að Vestfirðingar sem flytja suður séu mikil lyftistöng í félagslífinu syðra. Þeir hafa þá þegar mótast félagslega í einhverjum klúbbi eða reglu og þurfa til dæmis ekki að byrja á því að láta skera sér kjólföt eða annan virðingarklæðnað þegar þeir koma suður. Geta gengið bara beint inn með vottorð að vestan. Þar eru nefnilega allir helstu klúbbar veraldarinnar; frímúrarar, oddfellófar, kívanir, vanir og óvanir, læonsmenn, rótarýmenn, vantar bara að þar séu rúnntablemenn.

Ekki lenda konurnar þeirra blessaðar í vandræðum því að á Ísafirði eru ýmsar merkar stúkur og reglur svo sem Toast misstresses, Inner wheel, innra hjólið á íslensku, Zóroptímistasystur Zontasystur, Gluntrasystur og oddfellófkonur í sérstakri stúku. Frímúrarareglan er harðlæst kvenkyninu nema Sam-frímúrareglan sem er afar fín regla og er ekki í tengslum við karlaregluna. Vigdís forseti er til dæmis einna göfgasti félaginn í Sam-frímúrurum og Njörðar P.Njarðvík (að vestan) var þar og er kannski enn stórmeistari.

Á Ísafirði er fjöldi átthagafélaga; Hornstrendingafélag, Jökulfirðingafélag og meira að segja Reykvíkingafélag. Það að sunnan sem var of fínt til að ganga í félög innfæddra stofnaði Reykvíkingafélag. Margir gerast líka snúbúar. Gleymdi að minnast á öll blessuð kvenfélögin sem eru líklega tíu í Ísafjarðarbæ.

Maður hefur svo sem íhugað að flytja suður. Ekki af sérstakri þrá til Reykjavíkur og nágrennis, heldur komu upp vondar aðstæður sem kölluðu á íhugun. Ekki varð af því að farið yrði suður enda ekki búhnykkur að flytja. Guðmundur norðlenski sem bjó í Nesdal í Mýrahreppi hafði þó vaðið fyrir neðan sig þegar hann var hrakinn frá Nesdal af Sæbólsbændum á Ingjaldssandi. Kom Guðmundur inn í samning að allt skyldi flytjast á brott hvað tilheyrði honum innibundið ,,og er þar mykjuhaugur fjóss míns.“ Því urðu Sæbólsbændur að flytja fjóshaug Guðmundar norðlenska að Næfranesi í Dýrafirði þar sem hann fékk jarðnæði. Því miður á ég engan fjóshaug til að flytja suður en kartöflugarð ágætan. Hann verður varla fluttur suður og yrði ég því að nema land nýjum kartöflugarði í Gufuvík syðra.

Ýmislegt góss hefur safnast á þeim 40 árum sem ég hef verið búsettur í Hnífsdal. Þar eru bílar fyrirferðarmestir. Er ég nú renni augum með bókanna röðum eins og Jón Helgason í Árnasafni hefur safnast töluvert af bókum gegnum tíðina. Þó standa verkfærin hjarta mínu nær, ekki síst hefilbekkurinn af gerðinni Úlmía, þýskur úlfaldagripur, sem ég erfði eftir pabba sáluga. Mörg á ég ómissandi verkfæri svo sem púllara tjakka, hvers kyns handverkfæri, þvingur frá nítjándu öld sem Guðlaugur afi minn átti ásamt ævafornum vinkli munstruðum. Einnig á eg sikling og uppleggingarjárn siklings sem ég keypti dýrum dómum í Brynju. Fáir eiga slíkt járn nema ef vera skyldi Guðmundur Ketill Guðfinnsson sem var eini lærisveinn Arnórs Stígssonar frá Horni. Þegar allt þetta er haftí huga og það að kjallaraíbúðir eða önnur greni fást fyrir verð einbýlishúsa fyrir vestan verður hvurgi farið.

Enda engin ástæða til

Kær kveðja

bogi

DEILA