Þorpið í Flatey verði verndarsvæði

Flatey. Mynd úr skýrslu Alta.

Sveitarstjórn Reykhólahrepps hefur samþykkt að gera þorpið í Flatey á Breiðafirði að verndarsvæði vega sögulegs og menningarlegs gildis. Samþykktin verður nú send mennta- og menningarmálaráðherra til afgreiðslu.

í  greinargerð, sem unnin er af ráðgjafarfyrirtækinu Alta, er fjallað um varðveislugildi byggðarinnar og settir fram verndarskilmálar fyrir svæðið.

Þar segir í inngangi að:

„Flatey á Breiðafirði er einstakt svæði á Íslandi vegna sérstæðrar náttúru, menningarminja og landslagsheildar. Eyjan er hluti af verndarsvæði Breiðafjarðar, sbr. lög nr. 54/1995.

Sjálft þorpið í Flatey er mikið menningarverðmæti hvort heldur sem litið er til einstakra húsa, umhverfis þeirra, samstæðu húsa eða þorpsins sem heildar. Sérstaða þorpsins er talin slík að minnstu inngrip eða breytingar á húsum geti haft veruleg áhrif á svipmót byggðarinnar.1 Auk þess sem byggingararfurinn hefur verndargildi er saga byggðar í eyjunni merkileg. Hvorutveggja er mikilvægt á landsvísu.“

Svæðið sem lagt er til að verði gert að „verndarsvæði í byggð“ er afmarkað sem hverfisverndarsvæði í Aðalskipulagi Reykhólahrepps 2006-2018, sjá mynd 1. Innan marka þess svæðis er þorpið, aðliggjandi mýrar og strönd og svæðið umhverfis kirkjuna.

Verndarsvæðið. Mynd úr skýrslu Alta.

Markmiðið með hverfisverndinni er að tryggja eins og mögulegt er varðveislu byggðarinnar og einstakra húsa og að ákvarðanir sem varða breytingar á byggð eða á einstökum húsum séu teknar með þekkingu á því gildi sem þau hafa fyrir umhverfi, sögu og byggingarlist.

DEILA