Já, býrðu hérna enn þá Finnbogi?
Svona er ég stundum spurður þegar ég er sendur með tossamiðann í Bónus að kaupa inn.
Já, svara ég hálf afsakandi, ég bý hér enn þá.
Ég hélt þú værir fluttur suður, ég hef ekki séð þig svo lengi.
Nei ég er ekkert fluttur suður, ég bý bara út í Hnífsdal þar sem ég hef búið í tæplega 40 ár.
Já, er ekki bara gott að búa í Hnífsdal?
Jú,jú það er ágætt.
Ert þú ekki alltaf að skrifa eitthvað?
Jú, ég er að reyna að skrifa eitthvað.
Er það eitthvað héðan að vestan?
Nei, ekki beinlínis.
En þú ert ekki héðan að vestan?
Nei, ég er ekki héðan að vestan, ég kalla það að ég sé jarðarbúi og hefur oft verið dálítið stuðandi.
Vertu blessaður.
Vertu blessaður og sæll.
Nú sit ég hér jarðarbúinn við gluggann minn í Hnífsdal og horfi á börnin á Bakkaveginum tínast heim úr skólanum með töskurnar sínar á bakinu eins og litlir fallhlífarhermenn. Það er nefnilega bullandi líf á Bakkaveginum og stögug mannfjölgun. Að vísu ekki neinir tvíburar eins og á fyrr tíð en alltaf eitt og eitt barn. Sólin er farin að nálgast Bakkaveg 11 alveg ískyggilega en nær ekki austurglugganum í svefnherberginu fyrr en þriðja mars eða þar um bil. Sem sagt til einhvers að hlakka á Bakkaveginum. Og sólin snýr dálítið á köldu loftsstraumana um miðjan daginn, það er staðreynd. Annars lifi ég ásamt konu minni og ketti afar friðsælu lífi í Hnífsdal. Nýt þess á morgnana að hita kaffi og láta mórauðan mjöðinn vætla um æðarnar. Alsæll að þurfa ekki að vaða eitthvað út og standa í þrefi út af hinu eða þessu. Fæ ekki lengur skammir fyrir vondar fréttir og óþarfa afskiptasemi um mál sem áttu ekkert erindi í fjölmiðla. Ég las kunnuglega setningu einhvers staðar um daginn þar sem sagt frá gjaldþroti fiskvinnslu á Flateyri. Forráðamaður fyrirtækisins sagði við blaðamanninn að gjarldþrotið og stöðvun fiskvinnslunnar ætti ekkert erindi í fjölmiðla. Æ, guði sé lof að maður var hættur í þessu þegar menn ætla enn þá að hafa það bara út af fyrir sig að fyrirtæki væri orðið fallítt og fólkið sent heim. Ég fékk mér góðan slurk af kaffi og dæsti ánægjulega og fór með ljóðabrot eftir Grím Thomsen: En eftir horfir ellin grá, sólarlag liðinn dag laugar í gulli þá.
Bæjaryfirvöldin á Ísafirði eru ótrúlega friðsöm og fáskiptin. Af þeim hefur maður engan pata nema þegar fasteignaseðlarnir berast einu sinni í mánuði. Og aldrei er slegið af hjá gamalmennum þar sem viðmiðun tekna til lækkunar segir að hlutaðeigandi lifi langt undir hungurmörkum jafnvel þótt hann eigi kartöflugarð og rabarbara. Hér á Bakkaveginum hefur verið stunduð bókaramennt í 30 ár. Jafnvel til þess tekið á landsvísu. Einnig hafa verið skapaðir útvarpsþættir sem stórþjóðirnar hafa keypt og þýtt á tungur sínar með ærnum kostnaði. (Litlanesfólkið) Aldrei hefur þetta sveitarfélag sem ég bý í látið að því liggja að það vissi um gamlan mann sem sæti ótrauður við skriftir og þjóðin læsi í stórum stíl. Ekki morið.
Þetta átti nú ekki að verða nein Umkvörtun eins og hjá Bóluhjálmari til Akrahrepps en kannski héldist sveitarfélaginu Ísafjarðarbæ betur á fólki ef það sýndi á einhverjum árafresti borgurum sínum örlitla virðingu eða að minnsta kosti vissi að þeir væru ekki fluttir enn þá.
Kær kveðja
bogi