Reykhólar: Oddvitinn hyggst sitja áfram

Ingimar Ingimarsson, oddviti Reykhólahrepps hefur svarað fyrirspurn Bæjarins besta frá 22. janúar þar sem hann var inntur eftir því hvort hann hyggðist sitja áfram sem oddviti eftir að hann varð undir í hrepspnefnd með R leiðina. Segist hann ekki hafa í hyggju að segja af sér.

Svohljóðandi fyrirspurn var send 22. jan: Hyggst þú halda áfram sem oddviti eftir niðurstöðu sveitarstjórnar í gær um leiðaval þar sem tillögu þinni var hafnað? Fyrirspurnin var svo ítrekuð daginn eftir.

Það er hlutverk fjölmiðla að spyrja spurninga og leita svara. Þetta er eðlileg spurning í ljósi niðurstöðu sveitarstjórnar þar sem hann varð undir í þessu stærsta máli sveitarstjórnarinnar.  Þá þarf líka að velta fyrir sér framhaldinu og þegar oddvitinn hefur bókað eftirfarandi og borið Vegagerðina, nágrannasveitarfélögin og Fjórðungssambandið þungum sökum vaknar eðlilega sú spurning hvernig hann ætlar að leiða sveitarstjórnina áfram í þessu máli:

„Undirritaður lýsir vonbrigðu sínum yfir leiðarvali meirihlutans. Ljóst er að hótanir, kúgun og áburður Vegagerðarinnar, nágrannasveitarfélaga og Fjórðungssambandssins hafa borið tilætlaðan árangur.“

Enn hefur Ingimar ekki svarað fyrirspurn frá 15. janúar vegna tillögu hans og Karls Kristjánssonar um að setja R leiðina inn á aðalskipulag Reykhólahrepps. Spurt var:

  1. Hvernig verður þessari leið hrint í framkvæmd í ljósi umferðaröryggismats sem Vegamálastjóri segir að geri það að verkum að leiðin sé ekki að lögum fær?.
  2. Hvenær teljið þið að framkvæmdir geti hafist og hvenær verið lokið?

 

DEILA