Nýtt opinbert leigufélag stofnað með áherslu á landsbyggðina

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra kynnti á fundi um húsnæðismál sem haldinn var í Dalabyggð í gær, ákvörðun þess efnis að Íbúðalánasjóður stofni opinbert leigufélag. Leigufélagið, sem hefur fengið nafnið Bríet, mun taka við flestum þeim fasteignum sem eru á hendi sjóðsins í dag og reka hagkvæma leiguþjónustu með sérstaka áherslu á landsbyggðina. Bríeti er ekki ætlað að fara í samkeppni við einkarekin leigufélög á höfuðborgarsvæðinu. Soffía Guðmundsdóttir, sem áður var framkvæmdastjóri ráðgjafarsviðs hjá Íbúðalánasjóði, mun stýra hinu nýja leigufélagi. Ásmundur Einar segir stofnun Bríetar vera viðbragð við erfiðri stöðu á húsnæðismarkaði sem birtist ekki síst í háu verði og skorti á leiguhúsnæði á landsbyggðinni.

Ásmundur Einar vill fá sveitarfélög til samstarfs við nýja félagið en mörg þeirra reka nú þegar félagslegt leiguhúsnæði. Hann telur að hægt verði að bæta gæði, auka framboð og draga úr kostnaði með því að sameinast um rekstur slíks húsnæðis í stærra félagi sem starfi í þessum tilgangi einum og hafi ekki hagnað að leiðarljósi, umfram það sem þarf til að sinna viðhaldi og endurnýjun húsnæðisins.

„Ég er mjög ánægður með þetta skref. Finnar fóru svipaða leið í sinni húsnæðiskrísu og þar voru áhrif spennunnar á húsnæðismarkaði á almenning mun minni en hér. Ég horfi ekki síst til þess að þverpólitísk sátt myndaðist um aðgerðirnar hjá þeim. Samstaða er mikilvæg og að farið sé strax í aðgerðir sem nýtast fólki í húsnæðiskröggum. Við þurfum fjölbreyttar lausnir til að takast á við húsnæðisvandann. Sem betur fer hefur íbúðum í byggingu farið fjölgandi upp á síðkastið, þó það sé reyndar langmest á suðvesturhorninu. Íbúar og atvinnurekendur í sveitarfélögum annars staðar á landinu geta ekki beðið lengur og það er því rökrétt skref að leggja íbúðir sem ríkið á, í gegnum Íbúðalánasjóð, inn í þetta félag. Stór hluti þeirra íbúða er nú þegar í útleigu, en skort hefur á viðhald og langtímaöryggi fyrir þá sem þær leigja,“ segir Ásmundur Einar.

Ákvörðunin um stofnun nýja leigufélagsins hefur verið til skoðunar um nokkra hríð en gengið var endanlega frá henni á stjórnarfundi Íbúðalánasjóðs nú í morgun. Íbúðalánasjóður vill taka fram að enginn núverandi leigutaka þarf að óttast um sinn hag vegna þessara breytinga. Nánari áherslur í rekstri leigufélagsins verða kynntar á næstunni.