HVEST : Halli í ár og næsta ár hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða

Þrátt fyrir 80 milljóna króna aukafjárveitingu verður áfram halli á rekstri stofnunarinnar á þessu ári rúmlega 50 milljónir króna. Þá verður áfram verulegur fyrirsjáanlegur halli á næsta ári og er það um að ræða meira en 100 milljónir króna. Heilsugæsluselinu á Flateyri verður lokað.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Gylfa Ólafssyni, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Þar segir ennfremur:

„Áætlanir benda til að Heilbrigðisstofnun Vestfjarða verði á árinu 2018 rekin með um 50 milljóna króna halla þegar tekið hefur verið tillit til aukafjárveitinga á árinu. Þær voru stærstar 48 milljónir í sumar og 80 milljóna króna sem tilkynnt var um 27. desember. Sé litið framhjá aukafjárveitingunum er hallinn því tæpar 200 milljónir.
Laun höfðu verið vanáætluð í rekstraráætlun, en auk þess komu til stofnanasamningar við verkalýðsfélög ófaglærðra, þar sem kjör höfðu dregist verulega afturúr, afturvirkar leiðréttingar á launum sjúkraliða og ýmis önnur launatengd útgjöld. Saman eru launagjöld 250 milljónum króna hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir.
Stærstur er hallinn á hjúkrunarsviði, þar sem fjögur hjúkrunarheimili falla undir; Eyri á Ísafirði með 30 rými, hjúkrunardeild á sjúkrahúsinu á Patreksfirði með 11 rými, Berg í Bolungarvík með 10 rými og Tjörn á Þingeyri með 6. Svipaða sögu er að segja af hjúkrunarrýmum annarsstaðar á landinu, þar sem bæði stór og smá heimili berjast í bökkum.
Stofnunin hefur í gegnum árin farið í nokkrar umferðir af aðhaldsaðgerðum, nú síðast um þetta leyti árs í fyrra, þar sem starfskjör lækna voru skert, ný gjaldtaka var hafin og ýmsar starfstengdar greiðslur voru minnkaðar nokkuð.“

Þá kemur fram í fréttatilkynningunni að  framtíðarhorfur eru ekki góðar, verulegur halli er fyrirsjáanlegur þrátt fyrir þessar aðgerðir og lækka þurfi kostnað við stofnunina. Heilsugæsluselinu á Flateyri verður lokað á næsta ári í sparnaðarskyni.

Úr fréttatilkynningunni:

Fyrirsjáanlegur halli 2019
Fyrstu spár gerðu ráð fyrir halla upp á 165 milljónir króna fyrir árið 2019. Fjárheimildir eru hækkaðar um 50 milljónir milli ára, en eingöngu á heilsugæslusvið og sjúkrasvið sem fyrir er betur ástatt um en hjúkrunarsviðið, þar sem að óbreyttu yrði halli upp á 20%.
Við aðra umræðu fjárlaga var bætt við fjárveitingu til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni til kaupa á myndgreiningarbúnaði og annar pottur settur upp fyrir tækjakaup. Þetta er kærkomið en tekur ekki á undirliggjandi rekstrarvanda. Systurstofnanir hringinn í kringum landið hafa svipaða sögu að segja.

Fyrirhugaðar aðgerðir nægja ekki til

Unnið er að aðgerðum til að draga úr kostnaði. Farið verður í átak í að minnka yfirvinnu. Lagt verður til við Ríkiseignir að húshitunarkostnaður verði minnkaður með fjárfestingu í varmadælum á sjúkrahúsin tvö.
Þá verður heilsugæsluselinu á Flateyri lokað á árinu, en það er nú rekið í óhentugu húsnæði. Heimsóknir þangað eru um 200 á ári. Leitað verður leiða með Ísafjarðarbæ svo að almenningssamgöngur geti tekið mið af þessu. Nánari upplýsingar verða veittar á nýju ári og íbúafundur boðaður í janúar. Önnur heilsugæslusel verða rekin áfram með óbreyttu sniði.
Þá verður áfram haldið í að tryggja skilvirkni í starfsemi á skrifstofu og móttöku. Hefðbundin starfsmannavelta verður nýtt þegar stöðugildum verður fækkað á hjúkrunarheimilinu Eyri. Utanaðkomandi ráðgjafi hefur tekið út starfsemi hjúkrunarheimilanna allra og verður unnið úr þeim niðurstöðum á næstu vikum, þó ljóst sé að ekki sé svigrúm til stórra breytinga. Fjárhagsáætlun hefur verið lokað í jafnvægi lögum samkvæmt, en þegar tillit hefur verið tekið til samþykktra aðhaldsaðgerða eru í áætlun 83 milljóna króna aðhaldskrafa sem enn er óútfærð.

Litið fram á veginn

Óhjákvæmilegt er að fjölbreyttur og flókinn rekstur dreifðrar stofnunar hafi kosti meira en gerist þar sem þéttar er búið.
Áfram verður unnið að því að lækka kostnað en þeir kostir sem eftir standa hafa allir í för með sér þjónustuskerðingu eða óhagræði fyrir íbúa svæðisins og yfirvöld. Þannig hefur minnkuð þjónusta á Vestfjörðum í för með sér hvort tveggja minni sókn í heilbrigðisþjónustu—eins og raunin er nú þegar—og að ferðakostnaður verður mun meiri en ella væri. Skerðing fæðingaþjónustu hefði til dæmis mikinn kostnað fyrir foreldra, þjónustuskerðing í heimahjúkrun eykur annan kostnað og þannig má áfram telja.
Stjórnendur og aðrir starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða munu áfram vinna að því að virða tvíþættan vilja löggjafans, um að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita, og að það sé gert innan ramma fjárlaga.

DEILA