Vilja fresta uppbyggingu knattspyrnuhúss

Fyrri umræða um fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar, stofnanna og fyrirtækja fyrir árin 2019, auk 2020-2022, fór fram í síðustu viku. Þar kom fram að Í-listinn legði til breytingartillögu við fjárhagsáætlun 2019 til síðari umræðu. Breytingartillagan fjallar um að uppbyggingu knattspyrnuhús verði frestað um eitt ár. Arna Lára Jónsdóttir talaði fyrir hönd Í-listans og sagði að frestunin væri rökrétt: „í ljósi þeirrar óvissu sem ríkir um framkvæmdina“ Hún benti í því samhengi á að kostnaður við jarðvegsframkvæmdir sem gæti orðið umtalsverður.

Arna Lára sagði einnig: „Jafnframt er bent á að byggingarnefnd knattspyrnuhússins hefur ekki lokið sinni undirbúningsvinnu eins og henni var falið. Gert er ráð fyrir heildarskipulagsvinnu á Torfnesi skv. fjárhagsáætlun 2019 og það er skynsamlegt að horfa til þeirrar vinnu áður en framkvæmdir hefjast. Það er mikilvægt að vanda til alls undirbúnings og lágmarka að einhverju leyti þann auka kostnað sem getur hlotist af stærri framkvæmdum. Það er kostnaðarsamt að flýta sér. Með frestun á knattspyrnuhúsi er hægt að fara í önnur mikilvæg verkefni til að auka lífsgæði bæjarbúa. Má þar nefna: hellulögn í Silfurgötu, nýja göngustíga, nýtt sjómoksturstæki, útipotta á Þingeyri, fé til hverfisráða, óskerta upphæð í uppbyggingarsamninga við íþróttafélög, þarfagreiningu fyrir nýja slökkvistöð, fjárfestingu í fráveitu og hægt er að halda áfram með verkefnið Ísland ljóstengt.“

Bæjarstjórn samþykkti einróma að vísa tillögu að fjárhagsáætlun til síðari umræðu. Athygli vekur að í nýrri fjárhagsáætlun er ekki gert ráð fyrir því tveggja milljón króna framlagi sem hverfisráðin hafa fengið til umráða á hverju ári til þessa. Tilfærslur hafa þó verið gerðar í sambandi við tengiliði við hverfisráðin og bæjarfulltrúa en óljóst er hvort ætlunin með því sé að miðstýra frekar því fjármagni sem rennur til hverfanna.

Daníel Jakobsson formaður bæjarráðs segir að það sé ánægjulegt að leggja fram fjárhagsáætlun með 90 m.kr. afgang en framundan séu mjög stór fjárfestingarverkefni hjá Ísafjarðarbæ. Þess vegna sé mikilvægt að eiga fé fyrir þeim verkefnum.

„Stærstu verkefnin eru stækkun Leikskólans Eyrarskjóls sem verður að mestu lokið á næsta ári,“ segir Daníel í samtali við BB. „Bygging yfirbyggðs gervigrasvallar hefst á næsta ári og verður tekið í notkun 2020 og svo erum við við byggja 11 íbúðir í Sindragötu. Við höfum ákveðið að þær íbúðir verði seldar en ekki settar í leigu þannig að þær fara í sölu í vor. Þetta eru mjög glæsilegar íbúðir og eru kærkomin viðbót á fasteignamarkaðinn. Þessar íbúðir gætu til dæmis hentað eldra fólki enda er húsið vel staðsett og í því er lyfta.“

Daníel lýsir jafnframt yfir vonbrigðum með að ekki sé samstaða í bæjarstjórn um byggingu yfirbyggða gervigrasvallarins. „Í-listinn hefur lagt til breytingartillögu og vill fresta þessari framkvæmd eins og þau hafa gert síðast liðin tvö ár. Það er miður því ég tel að það sé mikil eftirspurn eftir þessu húsi. Við viljum búa börnunum okkar og íþróttafólki sambærilegar aðstæður og eru annarsstaðar á landinu. Flest sveitarfélög sem við berum okkur saman við hafa aðgang að húsi sem þessu. Yfirbyggður grasvöllur yrði gríðar mikil lyftistöng fyrir sveitarfélagið. En það er þá allavega ljóst að loforð Í-listans um þetta hús voru innantóm og að þeirra mati er mikilvægara að helluleggja götur og kaupa moksturstæki fyrir áhaldahúsið,“ segir Daníel.

„Fjárhagsáætlunin er annars nokkuð varfærin,“ bætir hann við. „Meðal annars vegna þess að áhætta er af því hvort að við náum að selja þessar íbúðir sem verið er að byggja og svo eru líkur á að verðbólga verði meiri en undanfarin ár. Þess vegna viljum við skila góðum afgang til að hafa borð fyrir báru og ekki safna óþarfa skuldum. Þá verða viðhaldsverkefni meiri en í meðalári. Stærstu verkefnin þar eru t.d. endurgerð á þaki á Grunnskóla Suðureyrar og millibyggingu á Grunnskóla Þingeyrar auk hefðbundinna viðhaldsverkefna,“ segir Daníel.

Sæbjörg

sfg@bb.is