Súðavík: 273 mkr í samgönguáætlun – 30 ný störf

Í fimm ára samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar sem liggur fyrir Alþingi er lagt til að veita 273 milljónum króna á næsta ári til 80 metra langs stálþils við Langeyri í Álftafirði. Með því má segja að ríkið sé búið að gefa grænt ljós fyrir sitt leyti á nýja kalkþörungaverksmiðju við Ísafjarðardjúp. Þrjár útfærslur eru til skoðunar fyrir hafnarframkvæmdirnar misdýrar, en einkum er horft til ódýrastu útgáfunnar, sem kostar 464 milljónir króna. Ríkið greiðir 75% af kostnaði við þilið en annað og þar með talið kostnað við fyllinguna greiðir sveitarsjóður Súðavíkurhrepps. Sá kostnaður gæti verið um 220 milljónir króna. Verktíminn er 1/2 – 2 ár eftir því hvaða leið verður ofaná.

Pétur Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps segir að sveitarsjóður standi vel og skuldir séu í lágmarki. Þá sé gerður nýtingarsamningur til 40 ára sem tryggi tekjur fyrir sveitarsjóð og í raun greiði hlut sveitafélagsins.  Pétur segir að hafnarframkvæmdirnar og uppbygging nýrrar kalkþörungaverksmiðju séu stærsta einstaka atvinnuþróunarverkefnið í Djúpinu. Það verða til 30 bein störf og 12 afleidd á svæðinu  sem þýði um 90 manna fjölgun við Djúp samkvæmt mati á hagrænum ávinningi  sem KPMG vann. Pétur Markan segir það ánægjulegt þegar verkefni sem lagt var af stað með 2014 sé að ganga upp eins og þá var að stefnt. Miðað við áætlanir nú má væntan þess að kalkþörungaverksmiðjan verði komin í rekstur árið 2021.

Áætlað er að verksmiðjan í Súðavík geti flutt út 120 þúsund tonn á ári miðað við þurrkað efni, sem er verulega meira en verksmiðjan á Bíldudal, en afköst hennar eru 46 þúsund tonn á ári. Kostnaðargreiningin, sem er ársgömul gerir ráð fyrir að tekjur verksmiðjunnar verði um 15 milljónir evra eða um 2,1 milljarður króna miðað við gengi 140 kr/evra. Launakostnaður yrði um 420 milljónir króna. Gert er ráð fyrir að verksmiðjan verði 7 ár að ná upp fullum afköstum. Á byggingartíma er gert ráð fyrir allt að 18 störfum.

Skattaspor fyrirtækisins er talið evrða um 190 milljónir króna, sem skiptist þannig að til sveitarfélaga renna 89 milljónir króna, 65 milljónir til ríkisins og 36 milljónir til lífeyrissjóða.