Safnar efni í tímahylki fyrir árið 2118

Fyrir nokkru fengu Önfirðingar bréf inn um lúguna frá Verslunarstjóra bókabúðarinnar á Flateyri, honum Eyþóri Jóvinssyni. Eyþór hafði þá fengið eina snilldar hugmyndina til viðbótar og innblásturinn var sóttur til þess að þann 12. október voru 100 ár liðin frá því að Verslunin Bræðurnir Eyjólfsson, eða bókabúðin, var formlega stofnuð. Hugmynd Eyþórs gengur út á það að safna sögum, myndum og allskonar og innsigla í tímahylki. Hylkið á svo að opna eftir 100 ár, eða 12. október 2118.

Eyþór skrifar svo í bréfinu: „Það sem við óskum eftir eru frásagnir frá Önundarfirði, lýsingar á staðarháttum, veðurlýsingar, ljóð, smásögur, dagbókarfærslur, ljósmyndir og teiknaðar myndir eftir bæði börn og fullorðna. Upplýsingar um þig og þitt daglega líf, hvernig tengist þú Önundarfirði? Hverjar eru hugmyndir þínar um Flateyri og Önundarfjörð árið 2118.“
En hvernig í ósköpunum stendur á því að hugmyndirnar vella út úr eyrunum á Eyþóri og hvaðan kom þessi um tímahylkið? „Í bókabúðinni,“ svarar verslunarstjórinn. „Af því að bókabúðin sjálf er eins og tímahylki, þar sem ekkert hefur breyst og gestir geta fengið innsýn inn í lífið eins og það var fyrir hart nær hundrað árum.“ Eyþór segist hafa farið að hugsa um það hvernig heimurinn yrði eftir önnur hundrað ár og langaði að gefa næstu kynslóðum sama tækifæri og fæst í bókabúðinni. „Að sýna smá glugga inn í árið 2018 á Flateyri.“

Enn hefur ekkert borist í tímahylkið enda tveir mánuðir þangað til tímahylkinu verður lokað þann 29. desember þessa árs. „En það hafa margir haft samband við mig,“ segir Eyþór. „Spurt og segjast vera að útbúa efni til að setja í hylkið. Þá hefur Guðni forseti boðað það að hann ætli að skila inn frásögn um ferðina sína vestur á Flateyri í haust, og verður hún því á meðal þess sem kemur í ljós eftir hundrað ár.“

„Hylkið verður búið til úr gömlum viðarkistli sem fannst upp á búðarlofti bókabúðarinnar og verður það varðveitt í andyri verslunarinnar. En hver mun á endanum opna það getur tíminn einn leitt í ljós, kannski verður þá komin áttunda kynslóð sem er að reka bókabúðina, nú eða Flateyri sokkin í sæ vegna hlýnunar jarðar, hver veit?“ segir Eyþór Jóvinsson sposkur að lokum.

Áhugasamir geta sent honum efni á Verslunina Bræðurnir Eyjólfsson, Hafnarstræti 3, 425 Flateyri eða komið með efnið í bókabúðina alla laugardaga á milli kl 13 og 16. Beðið erum að efninu sé skilað þannig að það passi í A5 umslag og sé merkt með fullu nafni og kennitölu sendanda.

Sæbjörg
sfg@bb.is