Arfleifð hvalveiða á Íslandi: sagan óþægilega og gleymda

Gestur í Vísindaporti er að þessu sinni dr. Brad Barr, en hann hefur undanfarið verið að rannsaka sögu hvalveiða á Íslandi. Hvalveiðar hafa frá landnámi verið stundaðar á Íslandi, í einu formi eða öðru og hafa þær mótað sögu og ímynd landsins. Ýmsar þjóðir hafa í gegnum aldirnar tekið þátt í veiðunum, svo sem Baskar, Hollendingar, Bretar, Bandaríkjamenn og Þjóðverjar, en þó einkum Norðmenn sem komu til að notfæra sér hin auðugu hvalamið við Íslandsstrendur. Þessar hvalveiðar eru stór þáttur af sögu landsins og ennþá er verið að uppgötva fornar hvalstöðvar og skrá minjar. Eftir vettvangsrannsóknir sem fóru fram á yfirstandandi ári dregur Brad þá ályktun að margar af hvalstöðvunum hafi orðið gleymskunni að bráð og ekki þótt þess virði að vernda þær. Ástæðan fyrir þessu áhugaleysi telur hann vera að Íslendingar hafi litið á hvalveiðar erlendra þjóða sem hluta af „sögu annarra“. Sú andstaða við hvalveiðar sem er algeng í heiminum í dag skiptir þó einnig máli. Það má samt gera sér vonir um að dæminu verði snúið við, hvað verndun þessara minja varðar, í landi sem sýnir annars verndun minja mikinn áhuga.

Brad Barr starfaði árin 2017-18 fyrir Fulbright stofnunina á sviði rannsókna á Norðurslóðum. Undanfarinn áratug hefur hann verið gestakennari við Háskólasetur Vestfjarða við námsleiðina í haf- og strandsvæðastjórnun. Brad lauk doktorsprófi frá Háskólanum í Fairbanks í Alaska og meðal áhugasviða hans eru staðbundin verndun menningararfsins á Norðurslóðum, arfleifð hvalveiða á heimsvísu, sjávarverndarsvæði og verndun ónýttra sjávarsvæða.

Vísindaportið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs kl. 12:10-13. Allir velkomnir. Erindið fer að þessu sinni fram á ensku.

Sæbjörg

sfg@bb.is