Allt samkvæmt bókinni

Það er ekki einfalt að lýsa á mannamáli þeim hrunadansi sem stiginn er á Vestfjörðum þessa dagana, en hér er gerð tilraun til að rekja atburðarrásina.

 

Í september 2015 eða fyrir rúmum þremur árum lögðu Fjarðarlax ehf (Nú Arnarlax) og Arctic Sea Farm hf fram fummatsskýrslu um eldi á allt að 19 þúsund tönnum af laxi og regnbogasilungi í Patreksfirði og Tálknafirði. Og í maí ári seinna lögðu fyrirtækin fram matsskýrslu á framleiðslu á allt að 17.500 tonnum af laxi í þessum fjörðum og óskuðu eftir áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun skilaði svo áliti í september 2016 og taldi að matsskýrslan uppfyllti skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum. Undanfari þessara skýrslna eru gríðarmiklar rannsóknir og burðarþolsmat fjarðanna.

 

Skipulagsstofnun telur þó upp ýmis hugsanlega neikvæð áhrif eldisins og leggur til að eftirfarandi skilyrði verði sett fyrir leyfisveitingum vegna fiskeldisins:

 1. Viðmið um heimilaðan fjölda laxalúsa á eldisfiski með hliðsjón af áætlaðri hættu á afföllum villtra laxfiska.
  2.    Vöktun á laxalús á eldisfiski og sýnataka verði á þeim tíma árs sem aðstæður eru hagstæðar fyrir vöxt laxalúsar.
  3.    Niðurstöður vöktunar verði gerðar opinberar.
  4.    Viðbragðsáætlun um mótvægisaðgerðir í samræmi við niðurstöður um smitálag frá eldisfiski hverju sinni og áhættu fyrir villta fiskistofna.
  5.    Samræmda útsetningu seiða fyrirtækjanna til að lágmarka hættu á því að smit frá eldinu berist milli árgangasvæða.
  6.    Eldisbúnaður Fjarðalax og Arctic Sea Farm uppfylli sambærilegar kröfur og settar eru í staðlinum NS 9415:2009 varðandi útbúnað og       verklag.
  7.    Vöktun á ástandi sjávar í fjörðunum til grundvallar endurskoðuðu burðarþolsmati verði í samræmi við ráðleggingar Hafrannsóknarstofnunar.
  8.    Vöktun á uppsöfnun lífræns úrgangs á sjávarbotn undir og við eldiskvíar og áhrifum þess á botndýralíf verði byggt á staðlinum ISO 12878.
  9.    Eldi hefjist ekki á ný að lokinni hvíld fyrr en hafsbotn á svæðinu hefur náð ásættanlegu ástandi, samkvæmt viðmiðum Umhverfisstofnunar.

 

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála gerir ekki athugasemd við þessa afgreiðslu Skipulagsstofnunar.

Arctic Sea Farm sótti um rekstrarleyfi til Matvælastofnunar með umsókn, dags. 23. september 2016. Stofnunin gaf út rekstrarleyfi til handa leyfishafa 22. desember 2017.

Umhverfisstofnun hefur veitt Arctic Sea Farm starfsleyfi fyrir eldi því sem um ræðir, en auk þess hafa Matvælastofnun og Umhverfisstofnun veitt rekstrarleyfi og starfsleyfi vegna eldis Fjarðalax á 10.700 tonnum af laxi í Patreksfirði og Tálknafirði, á grundvelli sama mats á umhverfisáhrifum.

 

Fyrirtækin hafa því farið í gegnum þetta ferli eftir öllum lögformlegum leiðum stjórnsýslunnar og fengið blessun allra stofnana sem að málinu hafa komið.

 

Kærendur, sem eru hópur eigenda laxveiðiáa vítt og breytt um landið, kröfðust niðurfellingar leyfanna og tafarlausrar stöðvunar af mjög mörgum ástæðum sem of langt er að telja hér en lesa má um í úrskurði kærunefndar. Kærendur telja meðal annars að Matvælastofnun hafi láðst að sinna þeirra skyldu sinni að „rannsaka, fjalla um og bera saman þá aðra valkosti sem til greina komi varðandi framkvæmdina, svo sem notkun geldfisks, eldi á landi, eldi í lokuðum sjókvíum, minna sjókvíaeldi eða svokallaðan núll valkost, sem hefðu í för með sér minni eða enga skaðsemi fyrir náttúruna og eignir annarra aðila“. Þetta er eini liður kæranda sem úrskurðarnefndin tekur til greina og byggir á niðurfellingu leyfa og stöðvun reksturs.

 

Matvælastofnun og leyfishafar fengu tækifæri til andsvara og í úrskurði nefndarinnar segir um málsrök Matvælastofnunar „Ákvörðun Matvælastofnunar um að veita rekstrarleyfi sé stjórnvaldsákvörðun í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt almennum sjónarmiðum í stjórnsýslurétti séu skilyrði fyrir því að hægt sé að ógilda stjórnvaldsákvörðun að ákvörðunin sé haldin annmarka að lögum, en með því sé átt við að hún sé haldin form- eða efnisannmörkum, annmarkinn teljist verulegur og loks að veigamikil rök mæli ekki gegn því að hún sé ógilt. Kærendum hafi ekki tekist að sýna fram á neitt framangreindra atriða.

Ennfremur að „Samanburður ólíkra valkosta við mat á umhverfisáhrifum feli í sér útfærslu á rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Því hafi verið slegið föstu í dómaframkvæmd að framkvæmdaraðili hafi að vissu marki fullt forræði á þeim framkvæmdarkostum sem hann taki til skoðunar við mat á umhverfisáhrifum, en útilokun framkvæmdarkosta þurfi að byggja á hlutlægum og málefnalegum sjónarmiðum. Þá sé einnig viðurkennt að það falli í hlut þeirra sem telji að skoðun og vali framkvæmdaraðilans sé áfátt að sýna fram á að til staðar sé raunhæfur valkostur. Ákvörðun leyfishafa um að setja einungis fram einn valkost hafi byggst á hlutlægum og málefnalegum sjónarmiðum.“

Í úrskurði nefndarinnar má lesa svohljóðandi andsvör fyrirtækjanna vegna þessa kæruliðs.

Leyfishafi og Fjarðalax setji fram einn aðalvalkost vegna fyrirhugaðs sjókvíaeldis í Patreksfirði og Tálknafirði og sé sú afstaða rökstudd í matsskýrslu. Sá málatilbúnaður kærenda að skylt hafi verið að meta umhverfisáhrif annarra valkosta í umhverfismati standist ekki nánari skoðun, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar frá 22. október 2009 í máli nr. 22/2009. Í málinu hafi verið skorið úr um að framkvæmdaraðili hafi forræði á því að meta hvaða valkostir komi til álita við mat á umhverfisáhrifum, enda sé það mat byggt á málefnalegum og hlutlægum grunni.

Af matsskýrslu verði glögglega ráðið hvers vegna leyfishafi hafi valið þann valkost sem tekinn hafi verið til skoðunar í mati á umhverfisáhrifum og hafi ekki tekið aðra valkosti til nánari skoðunar. Það sé hlutverk framkvæmdaraðila að skilgreina hvaða valkostir séu tækir með hliðsjón af markmiðum framkvæmdarinnar. Yfirlýst markmið umræddrar framkvæmdar sé að styrkja núverandi starfsemi á Vestfjörðum og gera rekstur fyrirtækjanna arðbæran og samkeppnishæfan til lengri tíma og þar með efla atvinnulíf og byggð á svæðinu. Áform fyrirtækjanna byggi á því að framleiðslan og afurðir fyrirtækjanna verði umhverfisvænar og framleiddar í sátt við vistkerfi framleiðslusvæða.

Hvergi í lögum sé að finna heimild til að skylda framkvæmdaraðila til að meta umhverfisáhrif framkvæmdarkosta sem ekki séu til þess fallnir að ná þeim lögmætu markmiðum sem að sé stefnt með framkvæmd. Leyfishafi og Fjarðalax hafi byggt ákvarðanir sínar á málefnalegum sjónarmiðum og gögnum, sem styðji val leyfishafa á fyrirhugaðri framleiðsluaukningu í kynslóðaskiptu eldi með svokallaðan Saga-eldisstofn. Að mati leyfishafa hafi engir aðrir raunhæfir valkostir verið nefndir til sögunnar, sem náð geti yfirlýstum markmiðum. Gallinn við ófrjóan lax sé sá að hann þurfi sérhæft og dýrt fóður til að bein þroskist eðlilega, afföll aukist og vansköpunartíðni geti verið há. Auk þess sé hætta á að viðbrögð markaða við vörunni verði neikvæð. Það sé viðurkennt að notkun á ófrjóum laxi sé enn í þróun og því ekki raunhæfur kostur, a.m.k. ekki enn sem komið sé. Samskonar sjónarmið eigi við um eldi í lokuðum sjókvíum og umfangsmikið landeldi á laxfiskum. Núllkostur gangi þvert gegn tilgangi og markmiðum framkvæmdar, en í honum felist óbreytt ástand. Það væri bæði óraunhæft og gífurlega íþyngjandi ef skylda væri talin hvíla á leyfishafa til að fjalla um annars konar fiskeldi en það sem hann starfi við og telji mögulegt fyrir sig að starfa við. Þá sé rétt að leggja áherslu á að Skipulagsstofnun hafi með áliti sínu fallist á að leyfishafi hafi metið umhverfisáhrif fyrirhugaðra framkvæmda í samræmi við lög nr. 106/2000. Af hálfu stofnunarinnar hafi ekki verið gerðar athugasemdir við skoðun á möguleikum við framkvæmdina.

Kærunefnd umhverfis- og auðlindamála kemst samt sem áður að þeirri niðurstöðu að Matvælastofnun hefði átt að krefjast útlistunar á fleiri kostum og segir orðrétt í úrskurði sínum „Það er ekki loku fyrir það skotið að einhverjir þeirra valkosta sem kærendur hafa nefnt komi ekki til greina í skilningi 8. og 9. gr. laga nr. 106/2000. Með hliðsjón af þeim laga- og reglugerðarákvæðum sem áður hafa verið rakin geta mismunandi valkostir t.d. falist í mismunandi staðsetningu, umfangi, tilhögun, tæknilegri útfærslu o.s.frv. er afar ólíklegt að ekki finnist a.m.k. einn annar valkostur sem hægt er að leggja fram til mats svo framarlega sem framkvæmdaraðili sinnir þeirri skyldu sinni að gera víðtæka könnun á þeim kostum sem til greina geta komið.“

 

Það má spyrja sig hvenær það sé loku fyrir það skotið að einhver önnur leið finnist, ef haldið er áfram að leita. Geldfiskur og lokaðar kvíar eru kostir sem eru þróun og verða hugsanlega raunhæfur valkostur þegar þessi tíu ára leyfi renna út, það er óumdeilt að það er ekki raunhæfur valkostur í dag. Landeldi af þessari stærðargráðu er hins vegar óhugsandi vegna gríðarlegs umfangs, vatns- og orkunotkunar.

 

Hér má nálgast úrskurð nefndarinnar, rúm ellefu þúsund orð. http://uua.is/?c=verdic&id=1661

 

Á 10 ára afmæli efnahagshruns Íslands er horfum við upp á hrun Vestfjarða, það er sorglegra en tárum taki en vonandi hefur kampavín stangveiðiburgeisana smakkast vel. Fyrir Vestfirðingum liggur að ákveða hvort þeim huggnist að búa í friðlandi fornra lífshátta, skondrast um á sauðskinsskónum og týna ber.

Bryndís Sigurðardóttir

Sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps