Stofnaði Fimleikafélag Vestfjarða

Það er nú þannig á Vestfjörðum að ef það á að gera eitthvað þá þarf bara að gera það. Sem betur fer eru mjög margir drífandi einstaklingar á svæðinu sem framkvæma hugmyndir sínar og Telma Ýr Snorradóttir er ein af þeim. Hún flutti á Patreksfjörð í fyrra með manninum sínum sem er þaðan og saman eiga þau 2 ára dóttur og 5 mánaða dreng. Mömmur geta sennilega allt, því Telma er búin að stofna Fimleikafélag Vestfjarða og þetta flotta félag með stóra nafnið er nú þegar komið með yfir 90 iðkendur.

Telma Ýr æfði áður með Gerplu og Stjörnunni en þjálfaði líka í Aftureldingu og Fylki í Reykjavík. Hjá Fimleikafélagi Vestfjarða er hún að þjálfa börn á aldrinum 3-14 ára en hún segir jafnframt að allir sem vilja geta komið og prófað. Sem stendur eru æfingarnar á Tálknafirði en Krílahópur 3-5 ára á Patreksfirði. „Það er búið að panta mikið af áhöldum sem koma á næstu vikum á Patreksfjörð og þá verðum við með æfingar á báðum stöðum. Það er nú þegar komin ýmis áhöld á Tálknafjörð svo þetta verður alveg geggjað,“ segir Telma í samtali við BB.

„‘Eg byrjaði að skrá þátttakendur í byrjun ágúst og fyrsta mánuðinn komu strax 96 inn. Nokkrir hafa dottið út eins og gengur en það hefðu getað verið fleiri svo þetta er mjög flott. Það er greinilega mikill áhugi. Þetta eru bæði stelpur og strákar sem æfa og ef við færum að keppa þá gætum við keppt með blandaða hópa með báðum kynum. Það munar miklu að hafa keppnisfyrirkomulagið svoleiðis,“ segir þessi knáa fimleikakona en BB fýsir að vita, af hverju flutti hún vestur?

„Af því að maðurinn minn er héðan,“ svara Telma. „Og af því að við erum komin með tvö lítil börn þá var auðveldara að vera hér.“

Þess má geta að enn er verið að safna fyrir fleiri fimleikaáhöldum og Fimleikafélagið skorar á fyrirtæki að styrkja málefnið. Nú þegar hafa Hótel Breiðavík og Gámaþjónustan styrkt starfssemina en áhugasamir geta lagt inn á

Kt. 570918-0360
0153-26-010692

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA