Aðsóknin í tjaldsvæðið þrefaldaðist frá fyrri árum

Bolungarvíkurkaupstaður vígði nýtt þjónustuhús á tjaldsvæðinu við Musterið fyrr á þessu ári. Húsið er glæsilegt og tengir tjaldsvæðið beint við sundlaugina. Viðtökurnar voru framar öllum vonum því þrátt fyrir að breytingin hafi lítið verið kynnt þá spurðist aðstaðan út og aðsóknin í tjaldsvæðið þrefaldaðist frá fyrri árum.

„Við höfum fengið afar góð viðbrögð frá ferðamönnum og margir hafa lýst yfir mikilli ánægju með þjónustuna og svo sjálfsögðu Musterið sjálft, sem er náttúrulega perla út af fyrir sig,“ segir Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík.


Gestir tjaldsvæðisins á næsta sumri geta líka hlakkað til að prófa nýja körfuboltavöllinn sem verður vígður á sunnudaginn klukkan 14. Þá mun Heilsubærinn Bolungarvík afhenda Bolungarvíkurkaupstað völlinn sem verður jafnframt vígður formlega. Heilsubærinn hefur unnið að því síðastliðið ár að endurbyggja völlinn með góðri hjálp sjálfboðaliða og þeirra sem veittu styrki. Landsliðsmaðurinn Logi Gunnarsson mætir í körfubolta af þessu tilefni ásamt körfuknattleiksdeild Vestra og boðið verður upp á grillaðar pylsur í samstarfi við Kjörbúðina.

Sæbjörg
bb@bb.is