4. flokkur mætir Breiðabliki á Olísvellinum á morgun

4. flokkur knattspyrnuliðs karla í Vestra. Mynd: Vestri.

Nú er sumri tekið að halla og aðalárstíð knattpyrnufólks í Vestra því að enda komin. En þetta er ekki alveg búið því að strákarnir í 4. flokki eru þessa dagana að spila í úrslitakeppni Íslandsmótsins. Þeir hófu keppni á föstudag þar sem þeir mættu Keflvíkingum í Reykjaneshöllinni. Það reyndist verða brekka því Vestri tapaði þeim leik 4-0. Drengirnir sáu hins vegar að ekki var hægt að leggja árar í bát fyrir næsta leik, sem var gegn Fjölni, gríðarsterku liði. Þá var allt annað uppi á teningnum og leikurinn varð gríðarspennandi. Fór þó svo að Vestri tapaði naumlega 3-2.

Strákarnir mæta síðan sterku liði Breiðabliks á morgun, miðvikudag. Fer sá leikur fram á Olísvellinum á Torfnesi kl. 15:30. Hvetjum við alla til að mæta og hvetja strákana.

Ekki skal gleyma því að þetta er sannarlega góður árangur þó að leikir hafi tapast. Það verður nefnilega að hugsa um aðrar aðstæður; t.d. hafa Fjölnismenn og Blikar úr 150 strákum að velja á meðan hér spila þeir strákar sem æfa. Það er ekki sjálfgefið að hægt sé að standa í stóru liðunum miðað við þessar breytur í jöfnunni en strákarnir í 4. flokki eru svo sannarlega að gera það.

Þessir drengir eiga margt hrósið skilið. Í sumar gerðu þeir sér lítið fyrir og unnu B-riðil á hinu geysisterka ReyCup-móti Þróttara í Reykjavík. Þar lögðu þeir lið Molina frá Chile í úrslitaleik og þurfti vítaspyrnukeppni til. Það verður því spennandi að fylgjast með þessum strákum í framtíðinni.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA