Aðrar ferðavenjur hjá fólki í ár

Daníel Jakobsson, gistihúsa- og hótelrekandi finnur fyrir samdrætti í gistingu í sínum rekstri en hann rekur Hótel Ísafjörð, Hótel Eddu, Hótel Horn og Gamla Gistiheimilið. Daníel segir ein ástæðan sé vegna þess að Ísland sé orðið of dýrt. ,,Það er minna af ákveðnum hópum sem koma til á Vestfirði, þessum sem komu með rútunum. Þetta er bara orðið of dýrt í dag. Við erum að sjá aukningu í bílaleigufólki,’’ segir Danni. Hann segir einnig að samkeppnin á Vestfjörðum sé orðin meiri, þar sem þeir sem reka hótel og gistiheimili séu í auknu mæli að keppa við heimagistingar. Þetta kemur vissulega niður á rekstrinum, en hann heldur því fram að það sé engin ástæða til að örvænta og trúir því að þetta gæti orðið skárra á næsta ári og vonar að Ísland verði ódýrara þá. Einnig sé mikilvægt að malbika hringinn því það hefur áhrif.

Nanný Arna eigandi Borea Adventures er jákvæðari um ferðamannastrauminn. ,,Mér finnst ferðamannastraumurinn vera svipaður og síðustu ár, jafnvel aðeins meiri lausatraffik núna í júní en í júní í fyrra. Við sjáum greinilegan mun á ferðavenjum, fleiri gestir sem koma til okkar eru akandi og spyrja um ódýra gistingu eða tjaldsvæði. Það hefur verið meira að gera hjá okkur í ferðum á þessu ári en var í fyrra, júní í ár er betri í afþreyingarferðumen í fyrra. Lausatraffík er meiri og svo er náttúrulega meira að gera í skemmtiferðaskipum þar sem þau eru fleiri í ár en í fyrra. Veðrið í júní í fyrra var slæmt og við fundum samdrátt í sölu um 15 – 20% þá, svo sá samdráttur er aðeins að koma til baka‘‘, segir Nanný.

Linda Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Vesturferða segir einnig að það sé svipuð ásókn í Vigur með sjóferðum Hafsteins og Kiddýar og á sama tíma í fyrra.

Alberta Gullveig Guðbjartsdóttir, umsjónarmaður tjaldsvæðisins í Tungudal segir að það sé minna sótt í tjaldsvæðið í ár miðað við í fyrra. Í því tilviki má kenna veðrinu um og HM í fótbolta. ,,Við eigum von á því að Íslendingarnir eigi eftir að flykkjast á tjaldsvæðið þegar HM klárast, eða við vonum það. Veðrið er líka það sem skiptir tjaldsvæðið máli,‘‘ segir Alberta.

Ísabella
isabellaosk22@gmail.com