Það er gott að búa á Ísafirði, bara ekki ef þú þarft leikskólapláss

Vilhelm Harðarson.

“Það verður ekki hlustað á hvaða rök sem er frá foreldrum,” sagði bæjarstjóri á hverfisfundi í Hnífsdal fyrir tveimur árum sem undirritaður sótti þegar til stóð að færa 5 ára leikskólabörn út í Hnífsdal. Miðað við þá ákvörðunartökuhæfni og rekstrarhagfræði sem Ísafjarðarbær hefur sýnt í leikskólamálum undanfarin ár þá hefði það sennilega verið bæjarstjórn til heilla að hlusta á öll þau rök og ráðleggingar sem völ var á.

Frá því að undirritaður fluttist hingað vestur fyrir 8 árum hefur lífið einkennst af áhyggjum af leikskólamálum barna okkar hjóna. Það er alltaf sama sagan, kostnaðarsamar skammtímalausnir sem hafa kostað bæjarbúa hundruð milljóna. Þegar það hefur svo hentað hefur verið kastað upp teikningum af stækkun leikskóla (sem að sjálfsögðu skýtur upp kollinum í aðdraganda kosninga) til að kæfa raddir óánægðra foreldra. En það var einmitt gert fyrir nákvæmlega tveimur árum, en þá átti að byrja að byggja “á næsta ári”.

Stefna ísafjarðarbæjar er að öllum börnum sé boðið pláss á leikskóla í síðasta lagi þegar þau ná 18 mánaða aldri, stefna sem ekki náðist að framfylgja fyrir opnun 5 ára deildar. En með opnun Tanga (kjallara Tónlistarskólans) var byrjað að taka inn yngri börn og unnið út frá því að börn allt niður í 12 mánaða fái vistun á leikskólum bæjarins ef pláss eru laus. Þetta litla “ef” gerir það hins vegar að verkum að það getur munað hálfu ári á að börn fædd á sama tíma fái leikskólapláss. Sem er einmitt sú staða sem við hjónin stöndum frammi fyrir í dag. En fyrir þá sem ekki vita þá er ekkert dagforeldri á ísafirði.

Nú eru kosningar í vændum og mig langar að nýta tækifærið og vera fyrsti maður til að skora á nýkjörna tilvonandi bæjarstjórn ísafjarðarbæjar að vinna að lausn á dagvistarúrræðum að loknu fæðingarorlofi. Þó ekki væri nema eitt dagforeldri, ég ætla ekki einu sinni að snerta á heilsárs leikskóla umræðunni. Sem reyndar er kosningamál í öðrum sveitarfélögum.

Það er ekki hægt að tala sífellt um að unga fólkið komi ekki eða vilji ekki vera, þegar á sama tíma ekki er hægt að bjóða því viðunnandi dagvistunarþjónustu fyrir börnin sín. Það fer bara.

Vilhelm Harðarson

Stýrimaður, sjávarútvegsfræðinemi og ekki leikskólapabbi

DEILA