Atvinnutækifæri fyrir þig?

Guðríður Matt Þorbjörnsdóttir, skipar 2. sæti á lista Framsóknar í Ísafjarðarbæ.

Það er fallegur sumarmorgunn. Heiðskýrt og bjart, pollinn lygn að venju, nýr Páll Pálsson reisulegur í höfn, og bærinn iðar af mannlífi. Nú skilur þú hvað fólk átti við með að hér eigi lognið lögheimili. Þú hallar þér aftur í skrifborðsstólnum, horfir útum glugga skrifstofunnar, virðir fyrir þér hið frábæra útsýni yfir Pollinn og hugsar hve heppin þú sért að hafa landað þessu starfi. Þú hefur nýtt síðustu daga til að kynna þér mannauðinn, samstarfsfólkið á skrifstofunni og í deildunum um allan Ísafjarðarbæ. Þú skelltir þér í sund á Flateyri með fjölskyldunni, naust blíðviðris í nýjum útipottum og rabbaðir við heimamenn og nýflutta nemendur sem mættir eru í nám við fyrsta Lýðháskólann á Íslandi. Um daginn fóruð þið fjölskyldan í sunnudagsbíltúr yfir á Þingeyri þar sem þið stoppuðuð meðal annars í Simbahöllinni þar sem þið brögðuðuð á bestu belgísku vöfflum sem þið hafið smakkað. Hér mun verða uppsveifla næstu árin með tilkomu Dýrafjarðargangna og auknu fiskeldi, enda má sjá bjartsýni og gleði yfir bæjarbúum á förnum vegi. Fyrir nokkrum dögum var þér boðið út að borða á Fisherman í sjávarþorpinu Suðureyri, þar sem þú snæddir glænýjan, dýrindis fisk, sem hafði verið veiddur aðeins nokkrum klukkustundum fyrr! Þvílík auðlind. Börnin hlakka til að byrja í skólanum um haustið, og þvílík forréttindi að geta öll labbað til vinnu og skóla, og þau sjá sjálf um að koma sér á íþróttaæfingar og í tónlistarnám, enda allt til staðar í göngufæri. Frelsið, fegurðin, fjölskyldan, forréttindi, virðast vera einkunnarorð þessara staða. Þú hlakkar ennfremur til vetrar, þar sem innan nokkurra mínútna ertu mætt á frábært skíðasvæði með fögru útsýni yfir fjörðinn. Forréttindi! Vinaleg andlit í kjörbúðinni og á röltinu um bæina bjóða þig velkomna vestur, alls staðar er þú ferð er þér vel tekið.

Þetta hljómar vel ekki satt?

En það eru líka gerðar kröfur til þín. Krafa um að þú hlustir á bæjarbúa er til þín leita. Krafa um að þú látir í þér heyra á landsvísu. Krafa um að þú sért öflugur málsvari okkar í Ísafjarðarbæ, og látir að þér kveða á höfuðborgarsvæðinu þar sem þú þrýstir á hin ýmsu ráðuneyti og hið háa Alþingi að gleyma ekki okkur Vestfirðingum. Við erum einungis 7.033 á Vestfjörðunum öllum og þurfum því að hækka róminn vel svo í okkur heyrist. Gott væri ef þú værir lögfróður einstaklingur þar sem þú þarft að fara að lögum og reglum í gerð samninga og æða ekki áfram í flýti. Þú þarft að vera kurteis, en jafnframt staðföst og þó sveigjanleg. Þú þarft að vera samvinnufús, þar sem þrjár raddir Ísafjarðarbæjar, Súðavíkur og Bolungarvíkur, heyrast betur en ein eða tvær í þeim málum er varða öll sveitarfélögin. Þú þarft að vera sýnileg en jarðbundin. Öflugur málsvari okkar hvert sem þú ferð. Þú þarft að vera hlutlaus, eiga engra hagsmuna að gæta í bæjarfélaginu, svo þú getir tekið á þeim málum er á borð til þín koma af hlutleysi og sanngirni. Best væri ef sú almenna sátt í samfélaginu næðist um störf þín, svo þú myndir sitja fleiri en eitt kjörtímabil. Því þarf að vanda til verka og orða. Það munu koma upp erfið mál, vinnutíminn getur oft verið langur og strembinn, en það er allt þess virði. Launin eru góð, starfsaðstaða er góð, náttúrufegurðin einstök og mannauðurinn frábær!

Þú, ert hinn nýi bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.

Ein af aðaláherslum Framsóknar í kosningunum eftir rúmar tvær vikur er að auglýsa eftir bæjarstjóra. Við viljum fá öflugan málsvara í púltið sem sátt ríkir um. Það ásamt fleiri málefnum er við leggjum áherslu á eru t.a.m.:

* Að Ísafjarðarbær verði í forystu í hagsmunabaráttu atvinnumála á Vestfjörðum. Við vitum öll að atvinna er uppistaða búsetu og því vill Framsókn skapa góðar aðstæður fyrir fiskeldi og uppbyggingu þess, tryggja aukið öryggi í raforkudreifingu og með hringtengingu rafmagns, við viljum vinna að uppbyggingu hringvegar 2 um Vestfirði sem ferðamannaleiðar, og tryggja og vernda opinber störf í sveitarfélaginu.

* Að tryggja áfram niðurfellingu gatnagerðargjalda vegna nýbygginga íbúðarhúsnæðis, sem og að afsláttur verði gefinn að fasteignagjöldum þess.

* Að skoðaður verði möguleikinn á nýrri Björgunarmiðstöð fyrir lögreglu og slökkvilið, þar sem núverandi húsnæði er vart boðlegt.

* Við viljum tryggja leikskólavistun fyrir börn frá 12 mánaða aldri. T.a.m. með stækkun leikskólanna og bættri starfsmannaaðstöðu um leið.

* Við viljum lækka verð á skólamáltíðum fyrir grunnskólabörn, og þær verði gerðar gjaldfrjálsar á tímabilinu til að tryggja að öll börn fái holla máltíð í skóla, óháð efnahag.

* Það þarf að tryggja framtíðarlausn á húsnæði Grunnskólans á Ísafirði sem og bæta heildarskipulags svæðisins þar sem tillit verður tekið til bílastæða, skólalóðar og húsnæðis. En Framsókn horfir björtum augum til framtíðar og reiknar með áframhaldandi fjölgun grunnskólabarna á svæðinu, sem kallar á stækkun og/eða endurskipulagningu húsnæðis.

* Að tryggja og efla sálfræðiþjónustu í grunnskólum, sem og bæta geðheilbrigðisþjónustu í sveitarfélaginu.

* Að Torfnes verði skipulagt til framtíðar sem líkamsræktar- og sundlaugarsvæði.

* Að fjölnota Knattspyrnuhús rísi á Torfnesi, og byrjað verði strax í haust.

* Að samgöngur milli byggðakjarna taki mið af frístundastarfi barna.

* Að hugað verði að viðhaldi og uppbyggingu á íþróttaaðstöðu á Þingeyri, Flateyri og Suðureyri í samráði við íþróttafélög og íbúa á hverjum stað, t.a.m. með klifurvegg á Flateyri.

* Að tryggja aukna opnun á Skíðasvæði Ísafjarðarbæjar t.a.m. með snjóframleiðslu.

* Þrýsta á að uppbygging Dynjandisheiðar og vegagerð í Gufudalssveit fylgi Dýrafjarðargöngum.

* Fjölga rýmum á Hjúkrunarheimilinu Eyri.

Kjósandi góður. Við hjá Framsókn höfum gefið út stefnuskrá okkar eftir að hafa fundað í byggðarkjörnum sveitarfélagsins. Af nógu eru að taka, og má lesa stefnuskrána í heild sinni inn á: https://issuu.com/gunnibje/docs/xb_stefnuskra18. Ef þetta eru málefni sem þú vilt láta þig varða, og vilt fá öflugt, ferskt og fjölbreytt fólk til að berjast fyrir hag þínum og okkar allra, skaltu muna eftir okkur á kjördag þann 26. maí næstkomandi.

Guðríður Matt Þorbjörnsdóttir, skipar 2. sæti á lista Framsóknar í Ísafjarðarbæ.

DEILA