Mikilvæg ráðstefna fyrir Vestfirði

Í gær, þriðjudag, lauk ráðstefnunni Strandbúnaður á Grand Hótel í Reykjavík. Strandbúnaður er nýyrði og vísar til „landbúnaðar“ og eru samtök allra þeirra sem stunda ræktun eða eldi á sjávarfangi , hvort heldur er á landi eða í sjó. Fyrir okkur Vestfirðinga er laxeldið mikilvægast enda útlit fyrir stórkostlega uppbyggingu á þeirri grein í fjórðungnum. Ráðherra sjávarútvegs, Kristján Þór Júlíusson ávarpaði ráðstefnuna í upphafi og sagði að nýtt frumvarp um sjókvíaeldi yrði vonandi afgreitt frá Alþingi í vor.

Á Íslandi er gert ráð fyrir að sjókvíaleldi á laxi skili 10 þúsund tonna framleiðslu og verði komið í rúmlega 25 þúsund tonn  árið 2020. Áætlanir fiskeldisfyrirtækja gera þó ráð fyrir rúmlega 60 þúsund tonna framleiðslu 2020, en miðað við óvissu um leyfisveitingar og framboð af seiðum verður að gera ráð fyrir að lægri talan sé raunhæfari. Ef miðað er við útreikninga á þolmörkum frá Hafrannsóknarstofnun gæti framleiðsla til framtíðar orðið allt að 130 þúsund tonn á ári.

Um mikla þjóðhagslega hagsmuni er að ræða þar sem reikna má með um tæplega 1000 kr/kg á útflutningsverðmæti, sem gætu þá numið um  25 milljörðum króna miðað við varfærna spá en allt að 60 milljörðum miðað við spá greinarinnar. Miðað við ýtrustu þolmörk gæti útflutningsverðmæti orðið allt að 120 milljörðum króna.

Ef framleiðsla næði þeim hámörkum, 130 þúsund tonn, myndi það skapa um 1.700 bein störf við eldið og um 1.300 afleidd störf, sem gera í heildina 3.000 störf á Íslandi. Einnig gæti eldið skapað tækifæri í aðföngum, þjónustu, fullvinnslu, tækni ofl. Rétt er að geta þess að atvinnusköpun í laxeldi verður á svæðum eins og Vestfjörðum, sem hafa átt undir högg að sækja í atvinnumálum og hafa mátt búa við fólksfækkun undanfarna áratugi.

Fátt vakti meiri athygli á ráðstefnunni en „eldmessa“ sveitarstjóra Súðavíkurhrepps Pétur Markan, um rétt Vestfirðinga til að ákveða örlög sín og geta nýtt sér það einstaka tækifæri sem laxeldið getur gefið til að snúa vörn í sókn. Hann lagði út frá rétti unga fólksins til að nýta sér tækifæri sem þessi öfluga atvinnugrein getur boðið uppá í framtíðinni og möguleikann á að starfa við spennandi og vel launuð störf í framtíðinni. Pétur segir Vestfirðinga vera leiðandi í umhverfismálum og ætli sér að reka laxeldi í sátt við umhverfið í framtíðinni.

Það var um margt áhugavert að hlusta á Kristján Ingimarsson frá Laxar fiskeldi sem hefur áralanga reynslu við störf í laxeldi í Skotlandi. Augljóst er að margt sé hægt að læra og tileinka sér frá þessum nágrönnum okkar í suðri í uppbyggingu á laxeldi í sátt við náttúru og íbúa.

En það má segja að Vilhjálmur Jens Árnason heimspekingur hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann sagði að þessa atvinnugrein þyrfti að reka með VIRÐINGU og FAGMANNSKU að leiðarljósi. Þar lægi lausnin til að öðlast traust almennings og velvilja og myndi tryggja náttúrunni þá umgengni sem hún á skilið.  

-Gunnar

DEILA