Ætla að tryggja útgáfu óháðs miðils

Frá stofnfundi BB útgáfufélagsins.

Fjölmennur stofnfundur útgáfufélags Bæjarins besta var haldinn í Vestrahúsinu á laugardaginn. Vestfjarðastofa tók að sér að halda utan um fundinn og kynna stofnsamþykktir og aðstoða við að tryggja hlutleysi blaðsins og velja stjórnarmenn og ritnefnd sem tryggir sátt meðal Vestfirðinga. Sigríður Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu, var kosin fundarstjóri á stofnfundinum.

Fram kom í máli stofnenda að mikilvægt sé að félagið sé almenningshlutafélag sem tryggi óháða útgáfu bb.is og sjálfstæði ritstjórnar. Einnig kom fram að fjölmiðill skuli fjalla um Vestfirði á jákvæðan hátt og verði rekið sem óháð fréttamiðill allra Vestfirðinga. Þannig verði bb.is sameiningatákn íbúa og berjist fyrir hagsmunum fjórðungsins og skapi jákvæða mynd af lífi og starfi Vestfirðinga.

Fyrir utan fundarmenn hafa margir skrifað sig fyrir hlutafé í nýju félagi sem vonandi tryggir útgáfu miðilsins í framtíðinni.

Í stjórn voru kosin: Shiran Þórisson, Viktoría Rán Ólafsdóttir og Pétur Markan. Í varastjórn voru kosnir Baldur Smári Einarsson og Sigurður Arnórsson

Í ritstjórn voru kosin Lína Tryggvadóttir, Inga María Guðmundsdóttir og Ari Hafliðason

DEILA