Matarsóun er algengari hjá yngri aldurshópum en þeim eldri og tekjuháir henda frekar mat en tekjulágir. Þetta er meðal niðurstaðna í könnun sem Umhverfisstofnun lét gera á viðhorfi Íslendinga til matarsóunar. Um er að ræða endurtekna könnun frá 2015.
Meirihluti fólks reynir að lágmarka matar- og drykkjarsóun eða um 75%. Samanburður við niðurstöður frá 2015 sýnir að staðan hefur lítið breyst og því eru enn einhverjar eftirlegukindur í þessum efnum.
Til að meta hversu miklu fólk hendir þá var spurt hversu oft fólk hendi matvælum eða drykkjum. Algengast er að fólk hendi einhverju 1 – 4 sinnum á viku. Líkt og í fyrri spurningu, þá eru niðurstöður mjög svipaðar á milli kannananna og enn rúm til bætingar. Athygli vekur að almennt var sóun minnst hjá þeim sem voru yfir 60 ára og talsvert meiri hjá 18-29 ára aldurshópnum. Einnig var tíðast sóað hjá fólki með hæstar fjölskyldutekjur, eða 1.200 þúsund eða hærra á mánuði.
Helstu ástæður matarsóunar hjá Íslendingum voru rýndar. Algengasta ástæðan var að maturinn væri útrunninn (67,3%). Næstalgengasta ástæða matarsóunar er skemmdur matur eða gæði matar ónóg (56,3%). Of mikill matur gerður/of stór skammtur er þriðja veigamesta ástæðan (42,4%). Matarsóun má stundum rekja til misskilnings á geymsluþolsmerkingum, en best fyrir gefur til kynna lágmarksgeymsluþol matvæla en síðasti notkunardagur varðar matvælaöryggi. Þetta eru einmitt skilaboð fræðsluherferðar Umhverfisstofnunarinnar Notaðu nefið þar sem áhersla er lögð á að nota skynfærin á matvæli merkt best fyrir. Niðurstöður sýndu að yngsti aldurshópurinn (18-29 ára) sóaði mun meira af útrunnum mat en elsti aldurshópurinn (60 ára og eldri).