Tók tíu mánuði að koma ársreikningi á dagskrá

Ársreikningur Byggðasafns Vesfjarða fyrir árið 2015 var ekki tekinn fyrir á stjórnarfundi safnsins fyrr en í byrjun nóvember 2017. Þetta kemur fram í svörum Gísla Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, við fyrirspurn Jónasar Þórs Birgissonar, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Fjárhagsstaða Byggðasafnsins er slæm og árið 2015 var tapið 7,3 milljónir kr. og 16,8 milljónir kr. árið 2016. Byggðasafn Vestfjarða er stofnun í eigu Ísafjarðarbæjar, Bolungarvíkurkaupstaðar og Súðavíkurhrepps. Gísli Halldór er stjórnarformaður og aðrir stjórnarmenn eru Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, og Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkurkaupstaðar.

Í svari Gísla Halldórs við fyrirspurn Jónasar Þórs kemur fram að hann fékk ársreikninginn 2015 í hendur í lok árs 2016 og og því liðu um 10 mánuðir þangað til hann var tekinn fyrir á stjórnarfundi og tæp tvö ár voru frá því að starfsárinu lauk. Í svari Gísla Halldórs segir að mánuði áður hafi hann kynnt ársreikninginn munnlega á stjórnarfundi, en þar sem láðst hafði að setja hann á dagskrá fundarins hafi ekki verið um formlega afgreiðslu að ræða.

DEILA