Þurfum rannsókn á samstarfi sveitarstjóra og skipulagsstofnunar

Kristinn Bergsveinsson

„Endanlegrar ákvörðunar er að vænta um áramótin,“ er haft eftir sveitarstjóra Reykhólahrepps á vef bb.is í gær. Ákvörðunar um hvað? Hún virðist ekki hafa lesið niðurstöðu umhverfismats Vegagerðarinnar þar sem ákvörðun um val á leið er mjög vel rökstudd, af fimm leiðum er Teigsskógur talin besta leiðin. Hún virðist vilja halda á lofti fullyrðingum andstæðinga vegarins um að Hæstiréttur hafi staðfest neitun Skipulagsstofnunar á veglínu. Umverfisráðherra samþykkti skipulagið en dómur Hæstaréttar felldi einungis úr gildi ákvörðun Jónínu Bjartmarz með fáránlegum rökum. Ég skora á Alþingi að skera nú á hnútinn en legg til eftirfarandi sem almennur borgari með rétt til að fá upplýsingar og ekki síður að löggjafinn, Alþingi, læri hvernig stjórnsýslan á ekki að vinna.

Nauðsynlegt er að fram fari rannsókn á samskiptum sveitarstjóra Reykhólahrepps og forstjóra Skipulagsstofnunar undanfarna mánuði og ár. Rannsóknin fari fram á grundvelli upplýsingalaga. Rannsakendur væru t.d. fréttamenn RÚV og niðurstöður ætti birta í Kastljósi. Báðir aðilar eru stjórnvald sem á að vinna fyrir opnum tjöldum en ekki með stofnanaofbeldi.

 Kristinn Bergsveinssson frá Gufudal

Es. Okkur bræður, Finnur og ég, langar mikið að vera við borðaklippingu að loknu verki.

DEILA