Listamannaspjall og endurvinnslulist

Listræn endurvinnsla hjá Maddy Riorda.

Í dag fer fram listamannaspjall og endurvinnslulist í Sprota, garðplöntustöðinni við Smárateig 4 í Hnífsdal. Það er Margaret (Maddy) Riorda, fædd í Baltimore í Bandaríkjunum sem ætlar að sýna verk sín og spjalla um þau og dvölina á Ísafirði. Hún útskrifaðist frá Rhode Island School of Design með BFA í skúlptúrgerð, hún hélt síðan áfram listnámi í Tallin í Eistlandi. Hún hefur dvalið í gestavinnustofum ArtsIceland á Ísafirði síðasta mánuðinn og unnið að list sinni sem sköpuð er úr hlutum sem hún hefur fundið í umhverfinu. Spjallið hefst klukkan 17 og eru allir velkomnir og enginn aðgangseyrir.

Um verk sín og dvölina á Ísafirði segir Maddy: „Nýtt umhverfi og nýjar hindranir krefjast aðlögunar þegar kemur að listum. Innan óþekktrar veraldar mótast bæði ég og verkin mín af því sem er fyrir hendi. Ég hafði aldrei séð eins grípandi fegurð og varð fyrir augum mínum á Ísafirði, aldrei áður gengið á eins há fjöll eða andað að mér þokuskýjum. Þetta gerði það að verkum að ég öðlaðist skilning á því að veröldin í kring um mig væri fær um hvað sem er – og takmarkanir væru ekki til þegar kæmi að list. Með endurvinnanlegum og hráum efnivið gat ég gert safn hluta sem hluta af ferli mínu í þróun listarinnar í gegnum filtera Ísafjarðar og Íslands í heild.

Mér hefur alltaf líkað hugtakið „ruslalistamaður” sem nær yfir marga listamenn í svipuðum sporum og ég, sem hafa úr litlu fjármagni að spila og njóta þess að róta í gegnum rusl til að finna falda fjársjóði. Stundum bætir veðrun við virði hluta – þegar þeir hafa þolað svolítið af lífi. Það eru einhverjir töfrar fólgnir í að taka eitthvað sem enginn vill og gefa því smá fegurð. Og með hæfileika ruslaleitarans og einbettan vilja getur list komið hvaðan sem er og verið gerð úr hverju sem er.“

 

DEILA