Bændur vilja 650 milljónir

Af íslensku sauðkindinni fæst úrvalskjöt.

Fulltrúar aðildarfélaga Landssamtaka sauðfjárbænda komu saman í Bændahöllinni fyrir helgi og funduðu um aðgerðir vegna vanda sauðfjárræktarinnar. Fyrir fundinum lá að bregðast við tillögum landbúnaðarráðherra og leggja fram ályktun um framhaldið. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fráfarandi landbúnaðarráðherra, mætti á fundinn og hélt ræðu þar sem hún fór yfir atburðarás síðustu mánaða og rökstuddi tillögur sínar. Vegna stjórnarslita og yfirvofandi þingkosninga eru sauðfjárbændur í lausu lofti og það verður á hendi stjórnvalda sem taka við að loknum kosningum að glíma við vandann.

Á fundinum var lagt til að bændur eigi kost á greiðslum sem miðist við innlögð kíló dilkakjöts árið 2017. Markmið aðgerðanna eru að koma í veg fyrir hrun í greininni og stórfellda byggðaröskun. Skilyrði fyrir þessum greiðslum verði m.a. að viðkomandi framleiðandi búi á lögbýli og hafi fleiri en 100 vetrarfóðraðar kindur samkvæmt skráningu Matvælastofnunar haustið 2016. Þetta yrði einsskiptisaðgerð og hugsuð til að bæta að hluta kjaraskerðingu sem er tilkomin vegna lækkunar á afurðaverði haustsins 2017. Aðgerðin verði fjármögnuð með sérstöku 650 milljóna kr. framlagi ríkisins.

smari@bb.is

DEILA