Sjálfsmyndin og tungumálin

Isabel Alejandra Díaz

2016 var viðburðarríkt. Kastljósviðtalið sem Helgi Seljan tók við mig vakti mikla athygli bæði hér á landi og í El Salvador. Ég sagði frá uppvexti mínum sem einkenndist af óvissu í yfir 10 ár, vegna þess að ég óttaðist að verða send úr landi þar sem að ég fékk ekkert varanlegt dvalarleyfi. Ég hef alltaf verið full þakklætis fyrir hvernig var tekið á móti okkur fjölskyldunni á Íslandi en það jókst vegna þeirra viðbragða sem að ég fékk í kjölfar viðtalsins. Ég upplifði svo mikinn kærleik frá Ísfirðingum en líka landsmönnum öllum. Á sama tíma var ég að útskrifast úr menntaskóla og við það fann ég líka fyrir dapurleika, því tilhugsunin um að yfirgefa Skutulsfjörð var mér nánast óbærileg. Sú tilfinning varð fljótt hluti af stórum tilfinningarússíbana þegar að afrekin mín vöktu athygli út fyrir landsteinana. Tvær þjóðir fylgdust með með mér og ég var komin í sviðsljósið. Það reyndist alltof mikið fyrir mig enda átti þetta sér stað á mjög stuttum tíma. Ég var á athyglisverðum stað þar sem að ég var að reyna af öllu hjarta að sameina þessa tvo ólíku heima sem að minn raunveruleiki samanstendur af. Foreldrar mínir hafa alltaf lagt mikla áherslu á að við börnin séum meðvituð og stolt af rómanska-ameríska bakgrunni okkar, sem að við erum. Ég veit að ræturnar mínar eru í El Salvador en hins vegar  hef ég blómstrað á Íslandi. Það er málið.

Að tengja við ræturnar

Það var á þessum tímamótum að ég fékk skilaboð alla leið frá Englandi en mér til mikillar undrunar hafði Anna Hildur Hildibransdóttir séð viðtalið við mig í Kastljósinu. Hún deildi með mér hugmynd sinni um að setja upp námskeið fyrir tví- og fjöltyngd börn til að efla málvitund þeirra. Það var hugsað fyrir bæði íslensk börn sem að hafa fæðst eða flutt erlendis og börn af erlendum uppruna sem að hafa sest að hér á landi. Þetta var hugmynd sem var byggð á hennar reynslu sem móðir og amma tvítyngdra barna. Boðað var til fundar á Ísafirði síðastliðið sumar þar sem yfir 20 manns komu saman til að ræða framkvæmd verkefnisins og ákveðið að fara af stað með vikunámskeið sumarið 2017 undir heitinu Tungumálatöfrar. Þegar ég sat þarna, á meðal fólks með skýrar og áhugaverðar hugmyndir, athugasemdir og ráðleggingar, varð ég óörugg með mig sjálfa. Ég var ekki viss um hvað ég gæti lagt af mörkum sem manneskja af erlendu bergi brotin því ég átti erfitt með að tilheyra báðum heimunum mínum. Ég vissi samt að á þessum fundi var eitthvað stórt að fæðast sem að ég vildi vera partur af. Ég treysti fundarmönnum fyrir vangaveltum mínum sem voru fullar efassemdar um sjálfa mig í tengslum við verkefnið en kvaddi samt full vonar um að ég fengi að vera með að ári.

Síðastliðið ár hefur haldið áfram að gefa. Ég hef fengið að taka þátt í ýmsu sem að hefur verið mjög þroskandi. Heimsóknin á Bessastaði var mér mjög mikilvæg en þarna var það í fyrsta skipti sem að ég upplifði mikla viðurkenningu frá báðum löndunum mínum. Mér á vinstri hlið var sjálfur forseti lýðveldisins og á þeirri hægri var skipaður sendiherra El Salvador, sem að hafði treyst mér til að vera annar fulltrúi Mið-Ameríska ríkisins á Bessastöðum. Núna í vor var mér líka boðið á leiðtoganámskeið í Svíþjóð á vegum Soroptimistasambands Íslands. Leiðbeinendurnir voru konur í hátt settum stöðum sem að kenndu okkur að efla leiðtogahæfileika okkar og hafa betri sýn á það sem að við stefndum að í framtíðinni. Einn fyrirlesturinn var um fjölmenningu og fjöltyngi, þar sem farið var vítt og breitt út í alla þættina svo ég hlustaði af miklum áhuga. Við lærðum svo mikið á svo stuttum tíma að það var ekki fyrr en að ég var komin heim sem að allt fór að smella saman fyrir mér. Ég var allt í einu komin með skýra hugmynd að því sem að ég vildi gera á komandi árum og var full tilhlökkunar fyrir Tungumálatöfra. Ég skildi betur hversu mikilvægt verkefnið Tungumálatöfrar er og hvernig þátttaka mín í því var að hjálpa mér að tengja við mínar eigin rætur.

Tungumálaskrúðganga verður árleg

Námskeiðið sem að fram fór aðra vikuna í ágúst uppfyllti allt og meira en það sem að ég hafði ímyndað mér. Mér fannst algjörlega magnað að sjá 15 börn á aldrinum 5 – 8 ára ná svo vel saman. Þau fengu rými til sköpunar og tjáningar en náðu líka að koma saman í hóp. Þau komu vel fram við hvort annað, hjálpuðust að, hugguðu hvort annað og skiptust á hugmyndum. Ég var stundum alveg agndofa. Ég tók eftir því að ég og íslensku börnin sem búsett eru erlendis áttum það sameiginlegt að eiga erfitt með þýðingar í kollinum. Ég sá að þau vildu tjá sig en náðu ekki að finna réttu orðin á íslensku. Þetta var í fyrsta sinn sem ég varð vitni að manneskju lenda í því sem að gerist hjá mér á hverjum einasta degi. Mér þótti það svo merkilegt. Í mínu tilfelli er það náttúrulega spænskan sem að flækist fyrir mér. En þetta er einmitt gott dæmi um þörfina fyrir þetta námskeið. Ég áttaði mig á því þarna að það hefði komið sér vel fyrir mig að hafa haft aðgang að námskeiði sem þessu þegar ég var barn.

Það sem að heillaði mig hvað mest var að heyra þau tala um heimalandið sitt og sjá hve stolt þau voru af því. Að sjá sakleysið og einlægnina í augum þeirra. Ég tók eftir því að kennararnir voru meðal annars mjög hvetjandi þegar kom að því að ræða heimaland og tungumál hvers og eins. Þarna erum við að skapa öruggan vettvang fyrir börnin þar sem að þau geta verið frjáls og talað um sig og sinn bakgrunn án þess að mæta mótlæti. Með þessu móti eru þau viljug til þess að deila með okkur sínum siðum, hefðum og menningu. Það er mikilvægt fyrir þau að varðveita bakgrunninn sinn og rækta tungumálin sem þeim eru gefin. Tungumálin eru hluti af sjálfsmynd okkar og það styrkir sjálfsmyndina að geta verið stoltur af því hvaðan maður er og að maður geti talað fleiri en eitt mál. Það er gott að geta fagnað fjölbreytileikanum en viðurkenna líka á sama tíma að í grunninn erum við öll eins.

Það er greinilega eftirspurn eftir verkefni sem þessu. Áhuginn sem að það vakti var hreint út sagt stórkostlegur. Á fundi sem haldinn var um framtíð verkefnisins var skipuð verkstjórn sem í sitja; Anna Hildur Hildibrandsdóttir, Herdís Hübner, Matthildur Helgadóttir Jónudóttir, Svava Rán Valgeirsdóttir og ég. Ég er spennt yfir að fá að vinna með þessum fyrirmyndarkonum og vonast til þess að geta lært heilmikið af þeim. Markmiðið er nú að þróa verkefnið áfram og þar sem að málefnið er vítt er einn af mínum draumum að geta snert ýmsa nauðsynlega þætti varðandi fjölmenningu. Ég er meyr en um leið glöð að saga mín skuli hafa verið hvatning fyrir þessa góðu hugmynd. Ég ætla að leggja mitt af mörkum til að reynsla mín sem tvítyngdur innflytjandi geti nýst. Ég veit núna að það hjálpar mér í mínu ferli og að um leið geti það hjálpað öðrum. við að styrkja sjálfsmynd sína.

Ég hlakka til að vinna að þróun hugmyndarinnar og búa til spennandi námskeið þar sem við bjóðum börnum að styrkja sjálfsmynd sína í málörvandi umhverfi. Einnig hlakka ég til að vinna að því að Tungumálaskrúðgangan verði árlegur viðburður á Ísafirði þar sem við fögnum fjölbreytileikanum og framlagi íslenskra útlendinga og útlenskra Íslendinga.

Isabel Alejandra Díaz, háskólanemi og verkefnastjóri Tungumálatöfra.

DEILA