Fasteignamat hækkar um 13,8%

Reykhólar. Mynd: Árni Geirsson.

Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 13,8% frá yfirstandandi ári og verður 7.288 milljarðar króna, samkvæmt nýju fasteignamati fyrir árið 2018 sem Þjóðskrá Íslands birti í dag. Fasteignamatið hækkar á 98,3% eigna en lækkar á 1,7% eigna frá fyrra ári. Þetta kemur fram í nýju fasteignamati Þjóðskrár Íslands fyrir árið 2018.

8,6% hækkun á Vestfjörðum

Samanlagt mat íbúða (130.346) á öllu landinu hækkar samtals um 15,5% frá árinu 2017 og verður alls 4.980 milljarðar króna. Á höfuðborgarsvæðinu hækkar matsverð íbúða í sérbýli meira en íbúðir í fjölbýli.  Húsavík sker sig úr öðrum bæjum. Þar hækkar íbúðamatið um 42,2%.

Einnig hækkar fasteignamat atvinnuhúsnæðis um 9,1% á landinu öllu; eða um 10,6% á höfuðborgarsvæðinu en um 5,7% á landsbyggðinni. Heildarfasteignamat á höfuðborgarsvæðinu hækkar um 14,5%,  um 12,5% á Suðurnesjum, um 14% á Vesturlandi, 8,6% á Vestfjörðum, 12,2% á Norðurlandi vestra, 12,4% á Norðurlandi eystra, 6,4% á Austurlandi og um 12,9% á Suðurlandi. Fasteignamat hækkar mest í Kjósarhreppi eða um 41,3%, um 27,5% í Norðurþingi, um 25,9% í Reykhólahreppi og  25,2% í Skorradalshreppi.

Meðalhækkun á höfuðborgarsvæðinu er 16,5%

Meðalhækkun á mati íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu er 16,5% og hækka flest svæði innan þess um 15-20%. Svipaða hækkun má sjá í nágrannasveitarfélögum, þannig hækkar matssvæðið Njarðvík um 18,6%, Keflavík um 18,3%, Grindavík um 19,1%, Akranes um 18,8%, Hveragerði um 17,9% og Selfoss um 17,5%.

Fasteignamatið byggist á upplýsingum úr þinglýstum kaupsamningum auk fjölmargra annarra þátta sem hafa áhrif á verðmæti fasteigna. Nýja fasteignamatið miðast við verðlag fasteigna í febrúar 2017. Það tekur gildi 31. desember 2017 og gildir fyrir árið 2018. Frestur til að gera athugasemdir við nýtt fasteignamat er til 30. desember 2017.

DEILA