„Ég man ekki eftir því að embættismaður á Vestfjörðum hafi sent sérstakt bréf til síns ráðuneytis til að fá leyfi til að hætta að þjónusta íbúa,“ segir Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík, um þá ákvörðun Jónasar Guðmundssonar sýslumanns að loka útibúi embættisins í Bolungarvík. Jónas hefur skrifað bréf til innanríkisráðherra þar sem óskað er eftir reglugerðarbreytingu á þá leið að embættinu beri ekki að halda úti starfsemi í Bolungarvík, líkt og núverandi reglugerð kveður á um.
Aðhaldskröfur og niðurskurður eru ástæður lokunarinnar eftir því sem kemur fram í fréttatilkynningu Sýslumannsins á Vestfjörðum. Jón Páll gefur ekki mikið fyrir þær útskýringar og þykir viðbrögð sýslumanns bera vott um uppgjöf. „Þetta er ekki í fyrsta sinn sem opinber stofnun fer fram úr fjárheimildum. Hvernig væri umhorfs hjá okkur ef viðbrögð stjórnenda stofnananna væru alltaf að loka og hætta að þjónusta íbúana þegar gefur á bátinn.“ spyr Jón Páll.
Hann gagnrýnir ráðuneytið einnig fyrir vanefndir á orðum þáverandi innanríkisráðherra þegar tilkynnt var um stofnun nýrra sýslumannsembætt í júlí 2014. „Þá var mjög skýrt hver markmiðin voru og talað var um að efla embættin og þau yrðu betur í stakk búin til að taka við fleiri verkefnum frá ráðuneytinu og undirstofnunum. Niðurstaðan eftir þrjú ár er að sýslumannsembættið á Vestfjörðum hefur skroppið saman og þjónustan minnkað,“ segir Jón Páll.
Hann segir þetta einstaka mál vera prinsippmál fyrir alla Vestfirðinga. „Við höfum öll heyrt þennan söng áður. Okkur er sagt að það eigi að sameina stofnanir en því fylgir venjulega að ekki standi til að skera niður, minnka þjónustu eða fækka fólki heldur eiga sameiningar að vera tækifæri til að efla stofnanir og sækja fram en því miður er raunin yfirleitt á hinn veginn. Störfum fækkar og þjónustan við íbúana versnar. Það er ekki hægt að láta endalaust ljúga að okkur,“ segir Jón Páll.
Á sýsluskrifstofunni í Bolungarvík voru tveir starfsmenn og eru þeir báðir að hætta störfum í dag. Auglýst hefur verið í eina stöðu í þeirra stað á Ísafirði.