Sakar sveitarfélögin um að brjóta á Orkubúinu

Viðar Helgason, stjórnarformaður Orkubús Vestfjarða.

Nokkuð hefur borið á því á undanförnum árum að sveitarfélög á Vestfjörðum hafi brotið gegn hagsmunum Orkubús Vestfjarða með sölu á vatsnréttindum til annarra fyrirtækja. Þetta kom fram í ávarpi Viðars Helgasonar, stjórnarformanns Orkubúsins, á ársfundi fyrirtækisins í dag. Viðar segir að sveitarfélögin hafi lagt vatnsréttindi inn til Orkubúsins fyrirr 40 árum þegar fyrirtækið var í sameign ríkis og sveitarfélaga á Vestfjörðum. Í ávarpinu nefnir hann tiltekin sveitarfélög ekki á nafn, en Orkubúið hefur til að mynda viljað fá rannsóknarleyfi í Skötufirði, Hestfirði og Ísafirði, sem eru í Súðavíkurhreppi, en Orkustofnun úthlutaði Vesturverki ehf. rannsóknarleyfum í fjarðarbotnunum. Sömuleiðis hefur Vesturverk fengið rannsóknarleyfi fyrir Skúfnavatnavirkjun í Strandabyggð.

Viðar segir að Orkubúið hafi átt í viðræðum við sveitarfélögin um þessi mál með litlum árangri. Ef samningaumleitanir skila Orkubúinu ekki ásættanlegri niðurstöðu þá segir Viðar það vera skyldu stjórnar að leita til dómstóla.

„Nærtækara væri að sveitarfélögin stæðu með Orkubúi Vestfjarða og styddu það í viðleitni félagsins til þess að vaxa og dafna, til að geta bætt þjónustu á starfssvæði sínu áframhaldandi. Í því fælist styrkur fyrir Vestfirði,“ sagði Viðar í ávarpi sínu.

DEILA