Metþátttaka í Körfuboltabúðum Vestra

Nú er tæp vika til stefnu þar til Körfuboltabúðir Vestra verða settar en þær fara fram á Torfnesi á Ísafirði dagana 30. maí-4. júní. Þetta er níunda árið í röð sem búðirnar eru haldnar. Metþátttaka er í stóru búðirnar í ár með hátt í 160 iðkendur á aldrinum 10-16 ára. Meðfram búðunum verður einnig boðið upp á svokallaðar Grunnbúðir sem ætlaðar eru iðkendum í 1.-3. bekk.

Alls koma í búðirnar krakkar úr 16 körfuknattleiksfélögum víðsvegar um land. Flestir eru eðlilega frá Vestra en Breiðablik kemur einnig með myndarlegan hóp, hátt í 30 iðkendur og síðan fylgja Njarðvík, KR og Skallagrímur í kjölfarið. Sérstaka athygli vekur að kynjaskiptingin er því sem næst jöfn í búðunum, rétt tæplega helmingur stúlkur og rétt rúmur helmingur drengir. Sýnir það glögglega að kvennakörfubolti á Íslandi er í mikilli sókn.

Þjálfarateymið í ár er ekki af verri endanum en tíu aðalþjálfarar og sjö aðstoðarþjálfarar eru á leið vestur til að gera búðirnar sem best úr garði. Yfirþjálfari í ár er Ingi Þór Steinþórsson, yfirþjálfari Snæfells og margfaldur Íslandsmeistari. Þjálfararnir koma víðsvegar að úr heiminum, frá Íslandi, Serbíu, Makedóníu, Spáni og Bandaríkjunum.

Það gefur auga leið að mikill undirbúningur býr að baki búðahaldi sem þessu en dagskráin er þéttskipuð frá morgni til kvölds. Æft er í þremur aldurshópum, 3-4 æfingar á dag fyrir hvern hóp, boðið er upp á fjölbreytta fyrirlestra, fimm máltíðir eru framreiddar á dag fyrir iðkendur sem gista á heimavist Menntaskólans og þrjár fyrir aðra þátttakendur. Vegleg kvöldvaka fer fram á laugardeginum og boðið er upp á þjálfaranámskeið.

DEILA