Íslenska verði leiðandi tungumál á vinnustaðnum

F.v. Aneta M. Matusewska, skólastjóri Retor fræðslu, Jóhann Magnússon framleiðslustjóri Íslenska kalkþörungafélagsins, og Hjalti Ómarsson framkvæmdastjóri Retor fræðslu.

Íslenska kalkþörungafélagið á Bíldudal hefur gert tólf mánaða samstarfssamning við Retor fræðslu um íslenskukennslu fyrir erlent starfsfólk fyrirtækisins. Samningurinn felur meðal annars í sér námskeið þar sem lögð verður áhersla á að kynna erlendu starfsfólki helsta orðaforðann sem notaður er á vinnustaðnum og snýr að heitum á hinum algengum hlutum sem þar koma fyrir ásamt öðru sem fyrirferðarmikið er í daglegu samtali starfsmanna og snýr að starfi þeirra. Retor mun einnig annast eftirfylgni með námskeiðunum.

Samstarfið kveður einnig á um að koma á framfæri leiðbeiningum og halda stutt námskeið fyrir íslenskt starfsfólk Kalkþörungafélagsins þar sem lögð verður áhersla á að aðlaga vinnustaðarmenninguna að þörfum allra starfsmanna þar sem talað er fleira en eitt tungumál. Markmiðið er að ná þeim árangri að íslenska verði hið leiðandi tungumál á vinnustaðnum. Kennsla Retors verður í fjarkennsluformi í fundarsal kalkþörungafélagsins og verður kennt á bæði pólsku og ensku.

Fyrsta námskeiðið verður haldið í júní þegar tíu kennslustundir verða haldnar í 3 kennslustundir í senn í samtals 30 kennslustundir. Áður en kennslan hefst verður framkvæmt stöðumat á þátttakendum til að greina hvaða námskeið henti best til að byrja með. Stöðumat í byrjun er jafnframt forsenda þess að hægt sé að mæla árangur að námskeiðunum loknum.

DEILA