„Hrein aðför að ferðaþjónustu á Íslandi“

Ferðamenn á Látrabjargi.

Það er staðreynd að afkoma ferðaþjónustufyrirtækja versnaði töluvert milli áranna 2015 og 2016 þrátt fyrir fjölgun ferðamanna. Af hverju? „Jú tugprósenta högg í formi launahækkana og gengisstyrkingar vega afar þungt í vinnuaflsfrekri útflutningsatvinnugrein sem ferðaþjónustan er,“ segir í grein Daníels Jakobssonar, formanna Ferðamálasamtak Vestfjarða sem birtist á bb.is í gær.

Í greininni gagnrýnir Daníel boðaða hækkun á virðiskaukaskatti ferðaþjónustunnar. „Ef virðisaukaskattshækkun á ferðaþjónustuna verður að veruleika mun það hafa alvarleg áhrif á rekstrarmöguleika fjölmargra fyrirtækja í greininni og hafa sérstaklega slæm áhrif á landsbyggðinni þar sem svigrúm fyrirtækjanna er minnst,“ skrifar hann.

Daníel Jakobsson.

Hann segir það grafalvarlega handvömm hjá stjórnvöldum að leggja til meira en tíu prósentustiga skattahækkun á ferðaþjónustuna án þess að hafa neitt í höndunum sem sýnir hvaða áhrif það mun hafa og algerlega án samráðs við aðila í greininni, hvort sem er hagsmunasamtök eða aðra.

Daníel ber saman þessa auknu skattheimtu við umræður um veiðigjöld í sjávarútvegi. „Þar hefur mikil áhersla verið lögð á samráð við greinina sjálfa. Ná þurfi að ná sem víðtækastri sátt um umhverfi sjávarútvegsins og að passa þurfi sérstaklega upp á þau byggðaáhrif sem tekjuöflun ríkissjóðs af sjávarútvegsfyrirtækjum hafi í hinum dreifðu byggðum.

Allt eru þetta skynsamleg rök, enda er upphæð veiðigjalda sem þar er rætt um talin í nokkrum milljörðum króna. Það vekur því furðu að þegar rætt er um gjaldahækkun á ferðaþjónustu sem nemur fjórum sinnum hærri upphæð – fjórum sinnum veiðigjöld – skuli slík hækkun lögð á með einu pennastriki. Það er gert án samráðs við atvinnugreinina sjálfa og án greininga á raunáhrifum á ferðaþjónustufyrirtæki og byggðalög sem nú treysta á ferðaþjónustu sem undirstöðuatvinnugrein í héraði og það allan ársins hring í sífellt meiri mæli.

Slíkt verður ekki skilið nema sem hrein aðför að ferðaþjónustu á Íslandi og fullkomin óvirðing gagnvart fólki sem starfar í greininni sem hefur á undangengnum árum unnið mikilvægt starf við að rétta við þjóðarbúskapinn þegar mest lá við,“ skrifar Daníel.

Greinin í heild sinni

DEILA