Forritunarnámskeið fyrir krakka á Ísafirði

Minecraft leikurinn hefur notið mikilla vinsælda.

Krökkum á Ísafirði og nágrenni gefst síðar í mánuðinum kostur á því að sækja forritunarnámskeið, þar sem þau yngri geta lært grunninn í Scratch forritun og hin eldri grunnaðgerðir í Python. Námskeiðin verða haldin í FabLab smiðjunni dagana 19.-21.maí. Scratch námskeiðið er fyrir krakka í 1.-4.bekk og verður þar kennt hvernig fá má fígúrur til að labba, hoppa, snúa sér í hringi og dansa. Hannaðir verða bakgrunnar sem breytast eftir aðstæðum, framkölluð hljóð og útbúinn einfaldur tölvuleikur. Scratch byggir á sömu aðferðum og flest forritunarmál sem notast er við í dag en í einfaldari mynd þar sem notandinn þarf ekki að skrifa texta heldur púslar hann saman aðgerðum til að ná fram þeirri virkni sem hann óskar eftir. Þeir sem hafa lært að nota Scratch hafa því ákveðið forskot þegar kemur að því að læra hefðbundna forritun. Námskeið er tvö skipti þrjá tíma í senn.

Python námskeiðið er fyrir krakka í 5.-7.bekk og munu þau þar meðal annars læra að hakkast í Minecraft með því að nota eigin kóða og tengja einfalda rafrás og skrifa kóða fyrir Minecraft sem kveikir á ljósdíóðu. Námskeiðið er þrjú skipti, þrjá tíma í senn.

Kóder.is eru hugsjónasamtök sem vilja með starfi sínu gera forritun aðgengilega fyrir börn og unglinga úr öllum þjóðfélagsstigum og með því að kynna fyrir þeim forritun opna þeim nýjar dyr innan tölvuheimsins. Í stað þess að vera einungis neytendur á afþreyingarefni og tölvuleikjum efla þau eigin rökvísi, sköpunargáfu og læra vandamálagreiningu frá unga aldri.

Hægt er að skrá þátttakendur og fá frekari upplýsingar inn á www.koder.is

annska@bb.is

DEILA