Þessa vikuna stendur yfir vitundarvakningarátakið 1 af 6 á vegum Tilveru, samtaka um ófrjósemi, en áætlað er að hverju sinni glími einn af hverjum sex hér á landi við ófrjósemi þar sem þriðjungur er rakinn til ófrjósemi karla, þriðjungur til kvenna og þriðjungur svokölluð óútskýrð ófrjósemi. Markmið vitundarvakningarinnar er að vekja athygli á ófrjósemi og þeim sorgum og sigrum sem fólk gengur í gegnum þegar það þarf að nýta sér aðstoð tækninnar til að eignast barn og nauðsyn þess að allir hafi jafnan aðgang að meðferðum og þurfi ekki frá að hverfa vegna kostnaðar.
Kvikmyndafyrirtækið Bergsól ehf. hefur framleitt sex myndbönd vegna átaksins sem nefnast 1 af 6 en þar en þar segir fólk frá glímunni við sjúkdóminn á afar áhrifaríkan hátt. Myndböndin eru sýnd á RÚV alla þessa viku, þá var málefnið einnig tekið til umfjöllunar í Kastljósinu í gær.
Í dag klukkan 18 verður gjörningur á vegum Tilveru til að vekja athygli á málefninu þar sem fólk gengur með tóma barnavagna í kringum Reykjavíkurtjörn. Tómur barnavagn táknar þann sársauka sem fólk sem glímir við ófrjósemi ber oft innra með sér.
Tilvera hefur fengið til liðs við sig Hlín Reykdal skartgripahönnuð til að hanna lyklakippu sem táknar 1 af 6. Með þessu er ekki einungis verið að vekja athygli á málstaðnum heldur mun ágóði sölu þessara lyklakippa fara í að styrkja félagsmenn sem eiga ekki rétt á niðurgreiddri meðferð frá Sjúkratryggingum Íslands, en ekki er í boði niðurgreiðsla vegna fyrstu meðferðar hér á landi.
Hægt er að lesa meira um átakið, kynna sér Tilveru og styrkja samtökin á heimasíðunni www.tilvera.is