Tónleikar til heiðurs Cohen

Svokallaðir tribute- eða heiðurstónleikar hafa verið að ryðja sér til rúms í auknum mæli hin síðustu ár og taka tónlistarmenn sig þá til og heiðra listamenn lífs eða liðna með flutningi á verkum þeirra. Nú fer um landið hljómsveit sem minnist söngvarans og söngvaskáldsins Leonards Cohen á tónleikum sem kallast Leonard Cohen: A Memorial Tribute og mun hljómsveitin spila á tónleikum í Edinborgarhúsinu á Ísafirði á laugardagskvöldið.

Kanadíski söngvarinn og skáldið Leonard Cohen lést á síðasta ári, þá 82ja ára að aldri og skilur hann eftir sig mikið af tónlist, sem hann gaf út á tæplega 50 ára ferli sínum sem tónlistarmaður og ber þar sennilega hæst lag hans Hallelujah, sem hefur fengið að hljóma í ófáum söng- og hæfileikakeppnum svo einhver dæmi séu tekin.

Heiðurshljómsveitina sem spilar í Edinborgarhúsinu skipa þau: Daníel Hjálmtýsson sem sér um söng og gítarleik, Benjamín Náttmörður Árnason, sem einnig spilar á gítar og sér um bakraddir, Magnús Jóhann Ragnarsson sem spilar á hljómborð, hljóðgervla og orgel, Pétur Daníel Pétursson sem sér um trommur og slagverk, Snorri Örn Arnarsson sem spilar á bassa, Ísold Wilberg Antonsdóttir og Guðrún Ýr Eyfjörð sem sjá um söng og bakraddir.

Tónleikaröð sveitarinnar hófst með beinni útsendingu úr Stúdíó 12 á Rás 2 og tónleikum á Græna Hattinum þann 3.febrúar sl. Seldist í kjölfarið upp á tónleika sveitarinnar á Café Rosenberg sem haldnir voru í febrúar og einnig verða þau að spila þar á föstudagskvöldið og er þegar uppselt á þá tónleika. Tónleikarnir verða sem áður segir á laugardagskvöldið og hefjast þeir klukkan 22, miðasala fer fram á miðasöluvefnum tix.is

annska@bb.is

DEILA