Þriðjudaginn 2. maí mun Anika Truter verja lokaritgerð sína í meistaranáminu í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða. Lokaritgerðin ber titilinn Management of Coastal Hazardous Sites: A case study of Reynisfjara Beach, Iceland. Ritgerð hennar fjallar um stjórnun hættulegra ferðamannastaða við ströndina og tekur hún Reynisfjöru í Mýrdal sérstaklega til skoðunar.
Hraður vöxtur ferðamanna iðnaðarins víðsvegar um heiminn hefur leitt af sér flóknar spurningar til að tryggja árangursríka stjórnun sem leiðir af sér ánægju og öryggi fyrir ferðamennina jafnframt því að samfélögin sem ferðamennirnir heimsækja hafi efnahagslegan og félagslegan ávinning af ferðamannastrauminum. Á Íslandi hefur ferðamönnum fjölgað um 38% á árabilinu 2010-2015 og er náttúrutengd ferðamennska áfram helsta aðdráttaraflið. Í Reynisfjöru, sem er vinsæll áfangastaður ferðamanna, hafa orðið þrjú dauðsföll frá árinu 2007 auk fjölda slysa þar sem öldur hafa hrifið fólk úr fjörunni og út á haf. Í ritgerðinni er núverandi staða í Reynisfjöru könnuð og lagðar fram tillögur um hvernig ákvörðunartöku og stjórnun verði best háttað með aðkomu hagsmunaðila.
Leiðbeinendur verkefnisins er dr. Catherine Chambers, fagstjóri meistaranámsins í haf- og strandsvæðastjórnun og Jamie Alley, M.Sc. sjálfstætt starfandi ráðgjafi í umhverfis- og auðlindastjórnun og fastur stundakennari við Háskólasetrið. Prófdómari er dr. Edward Huijbens, prófessor við Háskólann á Akureyri og rannsóknarprófessor við Rannsóknarmiðstöð ferðamála.