Geldlax eina lausnin

Jón Helgi Björnsson.

„Við erum ekki á móti fisk­eldi, held­ur vilj­um við koma í veg fyr­ir að það hafi áhrif á villta lax- og sil­ungs­stofna hér á landi. Ef menn ala fisk­inn í land­stöðvum eða finna leiðir til að gera það í haf­inu án áhrifa á um­hverfið ger­um við ekki at­huga­semd­ir við það,“ seg­ir Jón Helgi Björns­son, formaður Lands­sam­bands veiðifé­laga í viðtali í Morgunblaðinu.

Veiðifélög hafa varað sterklega við laxeldi í sjókvíum vegna stórtækra umhverfisáhrifa. Sjúkdómar og laxalús í stríðeldi eru meðal helstu áhyggjuefna stangaveiðimanna. Veiðifé­lög­in hafa þó lang­mest­ar áhyggj­ur af erfðablöndun villtra laxa­stofna hér á landi.

Jón Helgi segir þetta um erfðablöndun í samhengi við laxeldisáform í Ísafjarðardjúpi:

„Sá norski lax sem verið er að nota er með aðra erfðaupp­bygg­ingu en ís­lensk­ur lax. Hann hef­ur verið kyn­bætt­ur mikið svo hann henti í eldi. Þegar verið er að ala jafn mikið magn og til dæm­is er verið að tala um í Ísa­fjarðar­djúpi þarf 15 millj­ón­ir laxa í kví­arn­ar. Það slepp­ur alltaf eitt­hvað. Reynsl­an frá Nor­egi bend­ir til að það sé einn lax á móti hverju tonni í eldi.

Eld­is­menn segja að það sé minna. En ef það væri einn fisk­ur á móti tonni má bú­ast við að það sleppi 30 þúsund lax­ar í Ísa­fjarðar­djúpi. Til sam­an­b­urðar má geta þess að laxa­stofn­arn­ir í Djúp­inu telja 150 til 500 fiska hver stofn. Það seg­ir sig sjálft að þeir myndu ekki þola þá blönd­un sem því fylgdi. Lax­inn miss­ir þá erfðaeig­in­leika sem hon­um eru nauðsyn­leg­ir til að halda lífi í sínu nátt­úru­lega um­hverfi. Við telj­um að þetta varði við nátt­úru­vernd­ar­lög. Eng­um sé heim­ilt að valda slík­um skaða á nátt­úr­unni.“

Hann sér enga aðra lausn en að nota geldan lax í eldinu.

smari@bb.is

DEILA