Aldrei boðar endurkomu Kraftgallans sem tískuflíkur

Fátt sameinar betur töffheit og notagildi en sérmerktir Aldrei fór ég suður Kraftgallar.

Aldrei boðar endurkomu Kraftgallans sem tískuflíkur

Enginn tískuvarningur ungmenna hér á landi hefur sennilega vakið eins mikla ánægju meðal foreldra og Kraftgallinn hlýi og góði, en snemma á tíunda áratugnum þótti eitursvalt að sporta þessum bláu, fóðruðu heilgöllum og gat það komið sér vel þar sem ein helsta tómstundariðja ungmenna þess tíma var að mæla strætin skref fyrir skref flest kvöld (þó þar væru enga Pókemona að finna) og gilti þá einu hvernig viðraði. Líkt og verður um flest tískutrend tóku vinsældir gallans að dvína og þegar kom að aldamótum þótti fátt hallærislegra en gallinn góði. Kraftgallinn hefur þó ekki farið af markaðinum með öllu og hefur flíkin að sjálfssögðu talsvert notagildi og er til að mynda vinsæl hjá þeim sem vinna utandyra eða þar sem er kalt.

Stjórnendur rokkhátíðar alþýðunnar Aldrei fór ég suður eru með puttann á púlsinum að vanda og í ár boða þeir að Kraftgallinn sé heitasta flík páskanna 2017, eða ársins í heild. Til að styðja betur við þá kenningu í verki er nú boðið upp á takmarkað upplag af sérmerktum Aldrei-fór-ég-suður-Kraftgöllum í samstarfi við 66°Norður. Í dag er síðasti dagurinn til að tryggja sér slíkan kostagrip, en það má gera með því að senda póst á rokkstjori@aldrei.is, en í honum þarf að koma fram bæði nafn tilvonandi gallahafa ásamt stærð galla sem óskað er eftir S-XL í boði.

annska@bb.is

 

 

DEILA