Reiðin kraumar í fólki

Flutningabílar lenda oft í vanda á Hjallahálsi í Gufudalssveit.

Niðurskurður ríkisstjórnarinnar á samgönguáætlun er áfall fyrir fyrirtæki og almenning á sunnanverðum Vestfjörðum. Niðurskurðurinn kemur langharðast niður á Vestfjörðum þar sem 1.200 milljónir króna sem voru á þessu ári eyrnamerktar Vestfjarðavegi um Gufudalssveit eru skornar niður að fullu, auk þess sem slegnar eru út af borðinu 400 milljónir króna sem fara áttu í vegbætur í Dynjandisheiði.

„Slegnar eru af framkvæmdir sem full sátt var um að þyrfti að ráðast í, og beðið hefur verið eftir árum saman, vegna Vestfjarðavegar,“ segir í ályktun Samtaka atvinnurekenda á sunnanverðum Vestfjörðum. Þar segir einnig að samfélagið á sunnanverðum Vestfjörðum kraumi af reiði.

„Þótt 95 prósent af leiðinni til sunnanverðra Vestfjarða  sé malbikuð, þá eru þau 5 prósent sem út af standa í raun ófær og útiloka nánast flutninga með fólk og vörur. Helst mætti líkja þeim hluta við Kjalveg eins og hann var fyrir 30 árum síðan. Þannig eru þær vegbætur sem beðið hefur verið eftir alvarlegur þröskuldur í vegi áframhaldandi uppbyggingar og viðgangs bæði atvinnulífs og mannlífs á svæðinu,“ segir í ályktuninni.

Að mati Samtaka atvinnurekenda á sunnanverðum Vestfjörðum skýtur það skökku við að ríkisvaldið ætli að draga lappirnar í vegagerð í landshluta sem er einn af fáum á landsbyggðinni þar sem ríkt hefur uppgangur eftir langvarandi stöðnun og íbúum hefur tekið að fjölga að nýju. „Íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum láta ekki bjóða sér þessa niðurlægingu,“ segir í lok ályktunarinnar.

smari@bb.is

DEILA