Höfum burði til að vera öflug fiskeldisþjóð

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

„Ég hef hvatt fiskeldisfyrirtækin til að kunna sér hóf. Það þarf að byggja greinina upp á ábyrgan hátt og ekki líta á vöxtinn sem kapphlaup. Ef skynsemin ræður ferðinni, reglurnar eru skýrar og ekki vaðið fram þá höfum við alla burði til að gera Ísland að mjög öflugri fiskeldisþjóð. Við þurfum ekki að finna upp hjólið og getum lært mikið af Norðmönnum og þeim stífu reglum og ströngu kröfum um að búnað í fiskeldi sem þar gilda“

Þetta segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í samtali við 200 mílur, sjávarútvegsblað Morgunblaðsins í dag.

„Eins og staðan er í dag þurfum við að fá skýrari sýn á framtíð fiskeldis á Íslandi. Gera þarf mjög ítarlegar kröfur umhverfisvernd og ábyrgan vöxt. Fiskeldið má alls ekki skaða lífríkið í fjörðunum og alls ekki skemma villta stofna auk þess að eðlilegt er að gera kröfu um auðlindagjald í einhverju formi,“ segir sjávarútvegsráðherra í viðtalinu.

Í samtali við 200 mílur segir sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra ennfremur æskilegt að gjaldið renni að miklu eða öllu leyti til þeirra sveitarfélaga þar sem fiskeldið er rekið.

„Norðmenn líta svo á að þeir hafi gert mistök með því að láta þau gjöld sem tekin voru af fiskeldinu ekki skila sér í meira mæli til þeirra sveitarfélaga þar sem fiskeldið fer fram“, segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Smári

DEILA