Alþjóðlegur baráttudagur kvenna í dag

Í dag, þann 8.mars er alþjóðlegur baráttudagur kvenna og nota konur um víðan heim daginn til að berjast fyrir bættum réttindum og minna á að þrátt fyrir að mikið hafi áunnist síðan hugmyndin að deginum kviknaði árið 1910, sé landi ekki náð og enn hlutir sem berjast þarf fyrir til að rétta hlut kvenna, þó áherslur og verkefni kunni að vera mismunandi eftir löndum. Hugmyndina að deginum átti þýska kvenréttindakonan Clara Zetkin, sem bar hana fyrst upp á fundi Alþjóðasamtaka sósíalískra kvenna sem haldinn var í Kaupmannahöfn árið 1910. Þá var talið brýnt að velja sunnudag þar sem það var eini frídagur verkakvenna í þá daga og því var dagsetningin ekki fastsett fyrstu árin, en þá voru helstu baráttumál kvennadagsins kosningaréttur kvenna og samstaða verkakvenna.

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna var fyrst haldinn hátíðlegur meðal sósíalískra kvenna í Danmörku, Þýskalandi, Austurríki og Sviss þann 19. mars árið 1911. Svíþjóð, Frakkland og Holland bættust síðan við árið 1912 og árið 1913 var alþjóðlegs baráttudags kvenna einnig minnst í Tékkóslóvakíu og Rússlandi, er frá segir á vef Kvennasögusafnsins. Árið 1914 söfnuðust konur þúsundum saman í Þýskalandi 8. mars og var það upphafið að stórum mótmælafundum og kröfugöngum verkamanna og –kvenna sem stóðu í heila viku. Sama dag árið 1917 gerðu konur í Pétursborg verkfall til að krefjast betri kjara og friðar. Allir pólitískir leiðtogar lögðust gegn verkfallinu en konurnar héldu sínu striki. Fjórum dögum síðar sagði keisarinn af sér og bráðabirgðastjórn veitti konum kosningarétt og var þá rússneska byltingin hafin. Árið 1921 ákvað Alþjóðasamband kommúnista að samþykkja tillögu Clöru Zetkin um að 8. mars yrði þaðan í frá baráttudagur kvenna.

Misjafnt var eftir löndum hvort merkjum dagsins var haldið á lofti og fór æ minna fyrir honum eftir því sem árin liðu, en með tilkomu nýju kvennahreyfingarinnar um 1970 gekk 8. mars í endurnýjun lífdaga og ákváðu Sameinuðu þjóðirnar árið 1977 að 8. mars skyldi vera alþjóðlegur baráttudagur kvenna fyrir friði og jafnrétti.

Þennan dag árið 1989 ákváðu íslenskar konur frá fjölda kvennasamtaka og félaga að helga daginn baráttunni gegn kynferðisofbeldi á Íslandi. Á vef Stígamóta segir að sjaldan hafi myndast eins víðtæk samstaða um nokkurt mál meðal íslenskra kvenna. Hóparnir kynntu starfsemi sína á fjölmennum baráttufundi sem haldinn var í Hlaðvarpanum 8. mars 1989. Á fundinum var ákveðið að stofna Samtök kvenna gegn kynferðisofbeldi, sem leiddi af sér stofnun Stígamóta ári seinna, en þau opnuðu þennan dag árið 1990.

Í dag er dagsins minnst með ýmsum hætti. Til að mynda verður samstöðufundur í Iðnó klukkan 17 undir yfirskriftinni „Konur gegn afturför“ þar sem þemað í ár er hinn vaxandi þjóðernisfasismi og bakslag í réttindabaráttu kvenna og minnihlutahópa. Þar sem spurt er hvernig getur femínisminn verið andsvar við þeirri afturför.

annska@bb.is

DEILA