Íslenskunámskeiði lauk með taílenskri veislu

Úrval taílenskra rétta í mötuneyti HG.

Eftir að starfsfólk botnfiskvinnslu Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf. lauk fiskvinnslunámskeiðum fyrir áramót bauð  fyrirtækið starfsfólki sínu að sitja íslenskunámskeið í verkfallinu. Í síðustu viku luku 30 starfsmenn 30 stunda námi i íslensku á vegum Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða. Haldið var upp á árangurinn með taílensku matarþema í gær þar sem nokkrir starfsmenn af taílenskum uppruna elduðu og kynntu fyrir samstarfsfólki sínu taílenska matargerð. Þeir starfsmenn sem höfðu áhuga á að bæta íslenskuþekkingu sína enn frekar hófu nýtt íslenskunámskeið í morgun.

Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf. er fjölmenningarlegur vinnustaður og með íslenskunámskeiði er fyrirtækið að stuðla að bættri íslenskufærni starfsmanna sinna og auðvelda þar með aðlögun að bæði vinnustaðnum og samfélaginu.

smari@bb.is

DEILA