Bæjarins besta í Vísindaporti

Bryndís Sigurðardóttir, ritstjóri

Í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða þessa vikuna mun Bryndís Sigurðardóttir, ritstjóri héraðsfréttablaðsins Bæjarins besta og netmiðilsins bb.is, fjalla um erindi og ábyrgð fjölmiðla, mikilvægi héraðsfréttamiðla og hvað það þýðir að vera frjáls og óháður miðill. Bryndís mun einnig kynna nýja heimasíðu bb.is og ýmis verkefni miðilsins á nýju ári sem varða umfjöllun um viðburði, tengingar við stærra svæði og fleira.

Bryndís Sigurðardóttir er fædd og uppalin í Ölfusi og Hveragerði, við ástríki og hamingju og áhuga á landsins gagni og nauðsynjum eins og hún sjálf orðar það. Hún er kerfisfræðingur og viðskiptafræðingur að mennt auk þess að hafa viðað að sér víðtækri þekkingu og reynslu, svo sem eins og auknum ökuréttindum og svæðisbundnum leiðsöguréttindum. Hún fluttist til Vestfjarða árið 2013 og tók við stöðu framkvæmdastjóra sjávarútvegsfyrirtækisins Arctic Oddi á Flateyri. Sumarið 2015 tók hún við eignarhaldi og ritstjórnartaumunum á Bæjarins besta úr höndum Sigurjóns J. Sigurðssonar sem hafði ásamt félaga sínum haldið miðlinum úti í rúma þrjá áratugi. Bæjarins Besta er því að sigla inn í sitt 33. starfsárs í fjölmiðlaflóru landsins.

Vísindaportið er að vanda opið öllum og stendur frá 12.10-13.00. Erindi Bryndísar fer fram á íslensku.

annska@bb.is

DEILA