Ísfirðingum gekk vel í Svíþjóð

Sigurður Arnar, Albert, Dagur, Sólveig og Kristrún í góðu fjöri í Svíþjóð.

Æfinga og keppnisferð íslenska B-landsliðsins í gönguskíðum til Svíþjóðar lauk í gær. Skíðafélag Ísfirðinga á þó nokkra gönguskíðagarpa í hópnum, þau Albert Jónsson, Önnu Maríu Daníelsdóttur, Dag Benediktsson, Pétur Tryggva Pétursson, Sólveigu Maríu Aspelund og Sigurð Arnar Hannesson. Síðasta keppni var 10 kílómetra ganga með frjálsi aðferð í Idrefjäll í gær og gekk hópnum vel.

Í FIS-móti 17-20 ára stúlkna átti Anna María Daníelsdóttir frábæra göngu, hún endaði í 23. sæti og vann sér inn 187 punkta. Í flokki 17-20 ára karla hafnaði Albert Jónsson í 32. sæti og fékk 148 FIS punkta, sem eru hans bestu punktar hingað til, en FIS punktar eru styrkleikastig sem virka þannig að þeim mun sterkari sem keppandi er, þeim mun lægri FIS punkta hefur hann. Dagur Benediktsson endaði í 66. Sæti með 203 FIS punkta sem einnig eru hans bestu punktar. Sigurður Arnar hafnaði í 88. sæti og Pétur Tryggvi Pétursson í 102. sæti.

Ólafur Björnsson fararstjóri hópsins sagði hópinn vera vel stemmdan og ánægðan með árangur helgarinnar: „Krakkarnir voru lítið eða ekkert búin að fara á skíði fyrir ferðina og þau stóðu sig mjög vel miðað við það. Um þessa helgi stóðu þau mörg sig enn betur og náðu meðal annars Albert og Dagur sínum bestu FIS-punktum. Svo stóð Anna María Daníelsdóttir sig einnig mjög vel en þetta var hennar fyrsta FIS móti. Ég er því mjög ánægður með ferðina og þennan flotta hóp.

Pétur Tryggvi, Anna og Albert
Pétur Tryggvi, Anna og Albert

Í hópnum var einnig Brynjar Leó Kristinsson sem er skíðafólki á Ísafirði vel kunnugur, hann gekk 15 kílómetra og hafnaði í 92. sæti.

 

 

brynja@bb.is

DEILA