RÆTUR OG RÓSIR

Rætur og rósir er ný sýning á FLAK á Patreksfirði sem opnaði á laugardag.

Sýningin er samvinnuverkefni Godds (Guðmundar Odds Magnússonar) og Bjarna H. Þórarinssonar og er opin gestum og gangandi fram á haustið.

Sýningin er hluti af fjórðu myndlistarsýningu menningarverkefnisins UMHVERFING sem er ætlað að efla myndlist í öllum landshlutum, nú í Dölum og á Vestfjörðum og Ströndum í sumarbyrjun 2022.

Um verkið segir Goddur meðal annars:

„Rætur: Ljósmyndir af Öxneyar-súðbyrðingnum og umhverfi Breiðarfjarðareyja. Báturinn er smíðaður (2018) af frænda mínum Hafliða Aðalsteinssyni frá Hvallátrum. Eigandi bátsins er Sturla Jóhannsson frá Öxney.

Rósir: Samvinnuverk mitt og Bjarna H. Þórarinssonar.

Bjarni teiknar línurnar með blýanti eftir kerfi sem hann skapar sjálfur og kallar sjónháttinn. Hann lítur á teikninguna sem rannsóknaraðferð í málvísindum og kallar þær vísi-rósir og sjálfan sig Dr.Vísi. Hann færir mér svart/hvíta teikninguna til að lita og hefur engin afskipti af því sem ég geri við þær. Ég horfi ekki á málvísindin heldur á rósa-teikninguna sem mandölu eða galdrastaf – einskonar staðsetningu sálarinnar eða sem táknmynd uppljómunar sjálfsins. Bjarni er frekar ósammála þessu en honum finnast þær afar fallegar. Við höfum unnið saman í meira en aldarfórðung en við erum gamlir skólafélagar.

Ljósmyndirnar eru frá Breiðaarðareyjum þaðan sem öll mín móðurætt kemur langt aftur í aldir en flestir forfeður mínir eru bátasmiðir. Innri vísan heimtaugar verður hverjum persónuleg höfuðátt meðvitað eða ómeðvitað.“

DEILA