Ísafjörður: 20 ár sem hafnarstjóri

Guðmundur M. Kristjánsson, hafnarstjóri. Mynd: Ísafjarðarhöfn.

Guðmundur M. Kristjánsson, hafnarstjóri Ísafjarðarhafna fagnaði á föstudaginn því að hafa verið 20 ár sem hafnarstjóri. Guðmundur segist líta sáttur yfir farinn veg.

„Við höfum breytt áherslunum og ákváðum að sækja fram í komum skemmtiferðaskipa. Við fórum í markaðsvinnu og það hefur gengið vel. Langvarandi taprekstri hafnanna hefur verið snúið við með komu skemmtiferðaskipanna og nú skila hafnirnar hagnaði sem rennur til sveitarfélagsins. Þegar ég byrjaði skuldaði höfnin bænum peninga en nú er það öfugt.“

Guðmundur nefnir sérstaklega framkvæmdirnar í Sundahöfn þar sem gerður verður langur viðlegukantur. Hann segir þæ kosta um einn milljarð króna og hlutur sveitarfélagsins í kostnaði verði greiddur upp á 10 árum með auknum tekjum af viðskiptum við skemmtiferðaskipin.

Guðmundur segir að áður hafi skemmtiferðaskipin siglt frá Reykjavík til Akureyrar með stuttu stoppi á Ísafirði, en „við fengum skemmtiferðaskipafélögin til þess að trúa því að Ísafjörður væri á besta stað í heiminum mitt á milli Reykjavíkur og Akureyrar. Þau ákváðu að sigla frá Reykjavík til Ísafjarðar yfir nóttina og eiga þá heilan dag á Ísafirði og sama þaðan til Akureyrar. Þetta breytti því að farþegarnir fengu heilan dag á öllum þessum stöðum í stað dagspart.“

Í sumar koma 57 skip til Ísafjarðar 136 sinnum með um 160 þúsund farþega. Sem dæmi um það hvað það skiptir miklu máli að skipin leggist að bryggju á Ísafirði má nefna að fyrir fáum dögum lagðist skip við akkeri utan Eyrarinnar. Tekjur hafnarinanr voru áætlaðar 2,8 m.kr. en ef skipið hefði lagst við kant í Sundahöfn hefðu tekjurnar orðið um 5 m.kr.

DEILA