Bolvíkingurinn Róbert upplifði draum sinn

Húnahornið greinir frá því að Róbert Daníel Jónsson áhugaljósmyndari hafi nýlega upplifað draum sinn frá því að hann var barn, þegar hann myndaði haferni.

Róbert sótti um leyfi hjá Umhverfisstofnun um að fá að mynda arnarhreiður og fékk það.

Hann hefur verið í reglulegu sambandi við Kristinn Hauk Skarphéðinsson fuglafræðing á Umhverfisstofnun og helsta sérfræðing um haferni á Íslandi.

Svo kom að því að Róbert fór með sérfræðingum Náttúrufræðistofnunar Íslands nýverið til að merkja og mynda hafarnarunga.

„Vá hvað þetta var geggjað, ég átti stórkostlegan dag,“ segir Róbert upprifinn eftir ferðalagið. „Ég var að upplifa draum sem ég hef átt síðan ég var barn. Ég er fundvís á haferni þannig að ég hef verið í reglulegum sambandi við Kristinn Hauk þegar ég finn erni. Ég hef látið vita af ferðum þeirra og mjög oft náð að mynda merki þeirra svo hægt sé að greina hvaða fugl sé á ferð,“ segir Róbert og sjón er sögu ríkari eins og sjá má á þessum frábæru myndum hans.

DEILA