Vesturbyggð: Bjartir tímar framundan

Jón Árnason, oddviti Nýrrar sýnar í Vesturbyggð var að vonum ánægður með úrslit sveitarstjórnarkosninganna þegar Bæjarins besta náði tali af honum. Hann þakkaði kjósendum fyrir stuðninginn til áframhaldandi starfa fyrir samfélagið og sagði árangurinn byggjast á því að hafa frábært samstarfsfólk á framboðslistanum.

Jón Árnason sagði að bjartir tímar væru framundan í Vesturbyggð og vísaði þar til samstarfsyfirlýsingar Vesturbyggðar og Arnarlax um uppbyggingu laxasláturhúss í Vesturbyggð sem gerð var í síðustu viku. Þar kemur fram að byggt verður á Patreksfirði 10.000 fermetra stórt sláturhús, sem getur afkastað allt að 80.000tonnum af laxi, sem verður um 100 manna vinnustaður.

Ný sýn fékk 281 atkvæði og hélt meirihlutanum sem listinn vann í kosningunum 2018. Sjálfstæðisflokkurinn og óháðir fengu 263 atkvæði og munaði því aðeins 18 atkvæðum á fylkingunum.

Aðspurður hvort Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri yrði endurráðin sagði Jón að það væri eitt af verkefnunum framundan að ákveða það.