Friðlýsing Dranga: ráðherra bað um að fá málið strax

Í fundargerð samstarfshóps um friðlýsingu Dranga frá 26. nóvember kemur fram að þriggja mánaða kynningarferli lauk daginn áður þann 25. nóvember og að fyrrverandi umhverfisráðherra óskaði eftir því við samstarfshópinn að málinu yrði vísað til hans til staðfestingar strax í kjölfar fundarins ef ekki yrði gerðar efnislegar breytingar á tillögu að friðlýsingu Dranga.

Á fundinum voru teknar fyrir umsagnir nokkurra aðila um friðlýsinguna. Þar komu fram athugasemdir frá Skotvís og landssamtökum hjólreiðamanna sem vildu gerða breytingar á skilmálunum. Skotvís vildi að að allur texti um veiðibann verður felldur úr tillögunni og hjólreiðamenn vildu heimila hjólreiðar. Þeim tillögum var hafnað. Þá gerðu landeigendur og Náttúrufræðistofnun Íslands breytingatillögur sem voru samþykktar. Landeigendur vildu heimila smávirkjun til rafmagnsframleiðslu og Náttúrufræðistofnun vildi undanþágu frá banni við notkun dróna.

Að þessum breytingum afgreiddum var ákveðið að tillagan að friðlýsingu hefði ekki breyst efnislega heldur væri einungis um að ræða orðalagsbreytingar.

Fulltrúar Umhverfisstofnunar og landeigenda voru samþykkir því að vísa tillögunni til ráðherra þar sem ekki væri um efnislegar breytingar að ræða en fulltrúi sveitarfélagsins benti á að ekki ætti að fara of geyst í þessu máli og að skemmtilegra væri að friðlýsingarathöfn færi fram á Dröngum og þá helst að vori við góð veðurskilyrði.

Umhverfisstofnun benti á að með frestun á staðfestingu friðlýsingarinnar fram á vor myndi frestast uppbygging innviða á svæðinu, sem sótt hefur verið um fjármagn fyrir, um eitt ár.

Á fundinum voru þrír fulltrúar landeigenda, fulltrúi Minjastofnunar, þrír fulltrúar Umhverfisstofnunar, fulltrúi sveitarfélagsins og fulltrúi Umhverfisráðherra.

DEILA