Blámi: hægt að lækka orkukostnað um 70% við fóðurpramma

Blámi sem er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða og Vestfjarðastofu hefur sent frá sér skýrslu um orkuskipti fóðurpramma í fiskeldi.

Í skýrslunni er farið yfir orkunotkun fóðurpramma, hvernig auka megi hlut endurnýjanlegrar orku og draga þannig úr olíunotkun og losun á gróðurhúsaloftegundum. Fjallað er um hvata og hvernig flýta má fyrir orkuskiptum fóðurpramma á Íslandi en lausnirnar sem gætu komið til greina eru meðal annars landtenging við rafmagn, rafhlöður og notkun á rafeldsneyti. Í skýrslunni er farið yfir hvar væri hægt að innleiða grænar lausnir, hvaða lausnir gætu hentað hverju svæði, með tilliti til innviða, tæknilausna og þróun starfseminnar.

Höfundar eru Alexandra Diljá Garðarsdóttir, Anna María Daníelsdóttir, Dagný Hauksdóttir, Elena Dís Víðisdóttir og Þorsteinn Másson.

Stærsti hluti framleiðslunnar fer fram á eldissvæðum. Fóðurprammar eru settir við sjókvíarnar og fóðrinu dælt úr prammanum. Í fóðurprömmunum eru díselvélar sem framleiða rafmagn sem notað er til að dæla fóðri, knýja ljós og annan rafbúnað sem þarf til eldisins. Árið 2021 voru 15 fóðurprammar komnir í notkun og samanlögð olínotkun þeirra er um 1.800.000 lítrar á ári.

Áætluð olíuþörf vegna fóðurpramma, miðað við 100.000 tonna hámarkslífmassa og 70.000 tonna ársframleiðslu af laxi er 3.000.000 – 4.000.000 lítrar á ári ef grænar orkulausnir verða ekki innleiddar.

Lausnirnar sem gætu komið til greina við orkuskiptin eru meðal annars landtenging við rafmagn, rafhlöður og notkun á rafeldsneyti.

Landtengdir fóðurprammar
Landstraumstenging fóðurpramma er sú lausn sem dregur hvað mest úr notkun á jarðefnaeldsneyti. Fóðurpramminn er þá alfarið knúinn landrafmagni sem leitt er úr dreifikerfi raforku í landi út í prammann um sæstreng. Til þess að möguleiki sé á því að landtengja fóðurpramma þarf að vera aðgangur að þriggja fasa rafmagni í landi og fjarlægð
ekki of mikil eða undir 1-1,5 km frá tengipunkti.

Flesta fóðurpramma sem nú eru í notkun er hægtað útbúa með svokallaða tvinn lausn (e. hybrid) Þá er rafhlöðum komið fyrir í vélarrúmi prammanna og díselvélar sem nú eru í prömmunum sjá um að hlaða rafhlöðurnar. Með þessum hætti er hægt að stytta tímann sem díselvélin keyrir úr 24 klst á sólahring niður í 6 klst og ætla má að við það dragist olíunotkun saman um allt að 60%.

Kolefnisspor prammanna

Kolefnisspor dísel fóðurpramma er áætlað 324.000 kg af CO2 en það minnkar í 16.200 kg ef pramminn er landtengdur við rafmagn. Sé um tvinnlausn að ræða er kolefnissporið 129.600 kg á ári.

Áætlað er að kostnaður við landtengingu geti verið á bilinu 30-50 milljónir en á móti er orkukostnaður lægri og gæti lækkað um allt að 70% þegar notast er við landtengdan fóðurpramma. Viðhald og endurnýjun á díselvélum er stór hluti af viðhaldskostnaði fóðurpramma en vélum er skipt út eða þær endurbyggðar með reglulegu millibili. Þessi kostnaður lækkar eða jafnvel hverfur ef fóðurprammi er landtengdur.

Lækkar orkukostnað um allt að 70%


Kostnaður við svokallaða tvinnlausn gæti verið á bilinu 30-40 milljónir. Sú lausn dregur úr notkun á olíu og getur dregið úr orkukostnaði um 40-60%. Jafnframt dregur þessi lausn úr viðhaldsþörf díselvéla um borð í fóðurprömmum.

Arðsemi rafvæðingar Ljóst er að töluverður upphafskostnaður fylgir rafvæðingu fóðurpramma, hvort sem um er að ræða landstraumstengingu eða rafhlöðulausn. Á móti þeirri fjárfestingu er lægri orkukostnaður og minna viðhald en útreikningar höfunda sýna að fjárfesting í landstraumstengingu geti borgað sig upp á 7-8 árum og innri vextir (e. IRR) fjárfestingarinnar séu 4-5%.

Skýrsluhöfundar segja að raunhæft sé að tengja 50-60% af öllum eldissvæðum á landinu við landstraum og því séu mikil tækifæri til að draga úr notkun á jarðefnaeldsneyti á næstu árum.

DEILA